Fréttir

Góður gangur í breytingum í Grafarholti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 10. september 2025 kl. 15:37

Góður gangur í breytingum í Grafarholti

Framkvæmdir hafa staðið yfir á Grafarholtsvelli að undanförnu með breytingum á brautum og gerð nýrra flata. Í vor var byrjað að leika á nýrri 17. braut og einnig lagfærðri 18. braut og teigstæði. Mikil ánægja hefur verið með þessar breytingar.

Í færslu frá GR er sagt frá hvernig gangi með nýja flöt á 3. braut og 11. braut en stefnt er að því að þær komi í gagnið árið 2027. Þriðja flötin er komin með góðan „svip“ en nýlega var sáð í nýju 11. flötina. Þegar nýja 3. flötin verður tekin í gagnið verður sú sem fyrir er afmáð og verður þá jafnframt unnt að taka í gagnið nýja teiga á 4. braut, sem eru svo að segja tilbúnir.

Tom McKenzie er hönnuður þessara breytinga.  Ellert Þórarinsson, yfirvallarstjóri, hefur haft yfirumsjón með framkvæmdum.  Vallarstjórar Grafarholtsvallar, Darren Lee Farley og Bjarni Grétar Sigurðsson, hafa einnig tekið virkan þátt, en auk þessara hafa fleiri komið að, sérstaklega ber að nefna Steindór Eiðsson á jarðýtunni.

Örninn 2025
Örninn 2025

Nýja 3. flötin er til hægri en sú gamla til vinstri. Lengst til hægri má sjá nýja 17. flöt og teiga á 18. braut.

Slegið á nýju 17. brautinni sem er par 3 og fer í flokk með betri par 3 brautum landsins.

Átjánda brautin er mikið breytt. Hér sér yfir eina brautarglompuna og á 18. flötina.