Fréttir

Guðmundur endaði í 62. sæti í Frakklandi - fjögur mót eftir
Guðmundur Ágúst þakkar Min Woo Lee fyrir spilamennskuna en þeir voru saman í ráshópi síðasta daginn. Myndir/Friðrik Þór Halldórsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 25. september 2023 kl. 17:56

Guðmundur endaði í 62. sæti í Frakklandi - fjögur mót eftir

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur endaði í 62. sæti á á Cazoo Opna franska mótinu á Le Golf National golfvellinum í Frakklandi á DP Evrópumótaröðinni.

Guðmundur Ágúst lék 72 holurnar á sex yfir pari en skorið var frekar hátt í mótinu og margir kunnir kappar komust ekki í gegnum niðurskurðinn. Guðmundur vann sér inn rúmar tólf hundruð þúsund krónur fyrir árangurinn. 

„Ég lék ágætlega. Þetta er magnaður golfvöllur en erfiður og fljótur að refsa. Það eru fjögur mót eftir á mótaröðinni og ég vonast að komast að í einhverjum þeirra,“ sagði Guðmundur Ágúst.

Hann er í 188. sæti á stigalistanum og þarf að ná frábærum árangri í mótum sem eru eftir til að halda þátttökurétti sínum meðal 125 efstu.

Þetta er í sjötta sinn sem Guðmundur Ágúst kemst í gegnum niðurskurðinn en hann hefur tekið þátt í tuttugu og einu móti á keppnistíðinni. Okkar maður er á biðlista á öllum fjórum mótunum sem eru eftir, m.a. Dunhill mótinu í Skotlandi sem verður leikið um aðra helgi. Um næstu helgi verður Ryder bikarinn í Róm á Ítalíu.

Guðmundur Ágúst á hinum sögufræga Le National golfvellinum í Frakklandi. Myndir/Friðrik Þór Halldórsson.

Guðmundur Ágúst mundar pennann í eiginhandaráritunum handa ungum frönskum kylfingum.