Fréttir

Guðmundur og Haraldur fóru rólega af stað
Haraldur Franklín Magnús.
Fimmtudagur 1. október 2020 kl. 19:30

Guðmundur og Haraldur fóru rólega af stað

Atvinnukylfingarnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús hófu í dag leik á Italian Challenge Open mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröðinni. Haraldur lék betur af þeim tveimur og er jafn í 62. sæti eftir daginn. Á meðan er Guðmundur jafn í 85. sæti.

Haraldur byrjaði daginn ekki vel og var kominn á tvö högg yfir par eftir tvær holur. Hann náði þó með góðri spilamennsku að kom sér undir par og var kominn á tvö högg undir par eftir 16 holur. Skolli á 17. holunni þýddi að hann kom í hús á 71 höggi, eða á höggi undir pari, og eins og áður sagði er hann jafn í 62. sæti.

Guðmundur átti rólegan dag en hann var mest allan hringinn á parinu. Hann nældi sér í tvo fugla á holum fimm og 11 en á móti fékk hann þrjá skolla á holum, sjö, 14 og 15. Hann endaði því á 73 höggum, eða á einu höggi yfir pari, og er jafn í 85. sæti.

Efsti maður er á átta höggum undir pari en það er Englendingurinn Todd Clements. Eftir morgundaginn verður niðurskurður og þurfa því bæði Guðmundur og Haraldur að halda vel á spöðunum til að komast áfram.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Guðmundur Ágúst Kristjánsson.