Guðrún Brá með flottan hring og flaug í gegnum niðurskurðinn í Hollandi
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili tryggði sig í gegnum niðurskurðinn á Hollenska mótinu á Evrópumótaröðinni á Goyer golfsvæðinu í Hollandi. Þriðji og síðasti hringurinn verður leikinn á morgun sunnudag.
Guðrún lék flott golf í dag, var einn yfir pari eftir fyrri níu holurnar en fékk fugl á 10. braut og par á 11. holu. Var svo óheppin á 12. braut og tapaði tveimur höggum. Þá var útlitið ekki gott til að komast í gegnum niðurskurðinn en okkar kona lék síðustu sex holurnar á þremur undir pari, fékk fugl á 15., 16., og 18. holu, og par á 17. Glæsilegt golf og tryggði henni áfram í mótinu sem er mikilvægt. Niðurskurðurinn miðast við +5 en Guðrún er á +3 og er jöfn í 51. sæti á +3 en forystusauðirnir eru á sex undir pari.
Guðrún er ekki með þátttökurétt á LET, Evrópumótaröðinni sem er sú sterkasta í Evrópu en er með þátttökurétt á LET Access röðinni, þeirri næstu fyrir neðan. Hún komst þó inn á þetta mót og vonast til að fá fleiri tækifæri á LET og möguleikarnir eru án efa meiri eftir að hún komst í gegnum niðurskurðinn.