Fréttir

Guðrún Brá og Haraldur Franklín kylfingar ársins
Guðrún Brá og Haraldur Franklín eru kylfingar ársins 2021 - mynd golf.is
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 14. desember 2021 kl. 08:25

Guðrún Brá og Haraldur Franklín kylfingar ársins

Golfsamband Íslands hefur valið kylfinga ársins fyrir árið 2021.

Þeir eru Haraldur Franklín Magnus og Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Golfsambandið hefur staðið fyrir valinu frá árinu 1973 og frá árinu 1998 hafa karl og kona verið valin.

Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast allra verið kylfingur ársins alls 11 sinnum. Í kvennaflokki hefur Ólafía Þórunn Kristinsdóttir oftast hlotið viðurkenninguna, 6 sinnum.

Á vef golfsambandsins má finna neðangreindan texta:

Guðrún Brá Björgvinsdóttir

Guðrún Brá er fædd árið 1994 og hefur alla tíð leikið fyrir Golfklúbbinn Keili í Hafnarfirði. Hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018 er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni – sem er sterkasta atvinnumótaröð í kvennaflokki í Evrópu.

Guðrún Brá er fjórða konan frá Íslandi sem tryggir sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Ólöf María Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa einnig verið með keppnisétt á LET.

Alls lék Guðrún Brá á 16 mótum á LET Evrópumótaröðinni á þessu tímabili. Besti árangur hennar á tímabilinu er 12. sæti. Hún varð Íslandsmeistari í holukeppni 2020 á Þorláksvelli.

Á LET Evrópumótaröðinni lék hún á alls 16 mótum og besti árangur hennar var 12. sæti. Guðrún Brá verður með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á næsta ári.

Á heimslistanumhefur Guðrún Brá farið upp um tæplega 255 sæti á þessu ári en hún er í sæti nr. 620 á heimslistanum.

Guðrún Brá lék á lokamóti LET Evrópumótaraðarinnar, annað árið í röð. Guðrún Brá endaði í 75. sæti á stigalistanum á LET Evrópumótaröðinni en árið 2020 endaði hún í sæti nr. 127 á stigalistanum.

Með árangri sínum hefur hún tryggt sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á næsta tímabili sem hefst í febrúar 2022.

Það er mikill heiður og hvatning að fá þessa viðurkenningu annað árið í röð. Tímabilið var að mínu mati gott hjá mér þrátt fyrir að heimsfaraldur hafi haft mikil áhrif á mótahaldið. Ég keppti alls á 14 mótum á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu og komst í gegnum niðurskurðinn á 9 þeirra. Það sem stendur hæst upp úr er 12. sætið á móti sem fram fór í London í maí og einnig árangurinn í liðakeppninni á Aramco Team Series sem fram fór í Sádí Arabíu í nóvember. Þar enduðum við í 8. sæti sem að mínu mati er frábær árangur. Ég náði einnig að komast inn á lokamót LET annað árið í röð og lokakaflinn á tímabilinu var sterkur hjá mér – sem ég er ánægð með. Ég náði að leika mjög vel á þremur af alls fjórum hringjum á lokamótinu – og komst upp í 75. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Sá árangur gefur mér fullan keppnisrétt á LET á næsta tímabili. Ég trúi því að mótahaldið á næsta ári verði nálægt því að vera eðlilegt. Það ríkir tilhlökkun hjá mér fyrir næsta tímabil sem hefst í febrúar á næsta ári. Það verður hinsvegar gott og nauðsynlegt að taka frí um jólahátíðina og njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum hér á Íslandi.

Haraldur Franklín Magnús

Haraldur Franklín er fæddur árið 1991 og er í Golfklúbbi Reykjavíkur. Þetta er í þriðja sinn sem hann fær þessa viðurkenningu, fyrst árið 2012 þegar hann fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistartitli og í annað sinn árið 2018.

Frá árinu 2016 hefur Haraldur Franklín verið atvinnukylfingur. Hann hefur á undanförnum tveimur tímabilum verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, sem er næst sterkasta atvinnumótaröð í Evrópu.

Aðeins sex íslenskir kylfingar hafa öðlast keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni frá upphafi. Birgir Leifur Hafþórsson, Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús, Bjarki Pétursson og Andri Þór Björnsson.

Haraldur Franklín endaði í 48. sæti á stigalistanum sem er besti árangur hans á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour). Til samanburðar endaði hann í 85. sæti á þessum stigalista í fyrra.

Hann hóf tímabilið í sæti nr. 102 á stigalistanum og á tímabilinu fór hann hæst í sæti nr. 38.

Haraldur Franklín var aðeins þremur sætum frá því að komast inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar. Besti árangur hans á tímabilinu var 2. sætið á B-NL mótinu sem fram fór Hollandi í lok ágúst en besti árangur hans á árinu 2019 var 14. sæti.

Alls lék Haraldur Franklín á 19 mótum á Áskorendamótaröðinni – og er hann með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili sem hefst í byrjun ársins 2022.

Haraldur Franklín hefur farið hratt upp heimslistann á þessu tímabili. Hann hóf árið í sæti nr. 768 en á árinu fór hann upp um rúmlega 200 sæti og situr hann nú í sæti nr. 567.

Ég er þakklátur og það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu í þriðja sinn á ferlinum. Þegar ég lít til baka á atvinnumannaferilinn þá hefur verið stígandi í þessu hjá mér á hverju ári. Ég byrjaði með ekkert, komst inn á Nordic- Tour – var valinn nýliði ársins þar. Komst inn á Opna breska meistaramótið, vann mig inn á Áskorendamótaröðina. Var í baráttunni í ár að komast inn á stærsta sviðið, Evrópumótaröðina, og í mun betri stöðu núna en í byrjun ársins. Tímabilið í ár var í raun fyrsta alvöru tímabilið á Áskorendamótaröðinni þar sem að tímabilið í fyrra var mjög laskað vegna heimsfaraldurs – aðeins örfá mót voru á dagskrá.
Ég náði fyrsta markmiðinu mínu sem var að komast í keppni um sigur á nokkrum mótum og vera á meðal 7 0efstu á stigalista mótaraðarinnar. Markmið númer 2 var að vera meðal 45 efstu. Ég var grátlega nálægt því. En ég er á mun betri stað á mótaröðinni núna en ég var í fyrra. Það gætu opnast gluggar inn á einhver mót á Evrópumótaröðinni en ég á ekki von á því þar sem að enginn missti keppnisrétttinn á Evrópumótaröðinni á þessu tímabili.
Besta mótið hjá mér í ár var í Hollandi þar sem ég komst í bráðabana um sigurinn. Það voru fjórir kylfingar í bráðabananum og það var rosalega gaman að upplifa slíkt en svekkjandi að ná ekki að vinna. Ég get ekki beðið eftir því að upplifa „eðlilegt tímabil“. Það var fullt starf að púsla þessu öllu saman á þessu ári. Ég hef hef misst tölu á hvað þetta vöru: mörg flug, mörg lönd, mörg covid próf, mörg undanþágubréf til að komast inní mismunandi lönd, Og svo framvegis. Keppnistímabilið á að byrja í Suður-Afríku í febrúar á næsta ári en það er óvíst hvernig þetta fer miðað við stöðuna á faraldrinum núna. Það eina sem ég ætla að gera er að æfa eins mikið og ég get fram að fyrsta móti á nýju ári.



Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.

Kylfingar ársins frá upphafi:

1973 Björgvin Þorsteinsson GA 1
1974 Sigurður Thorarensen GK 1
1975 Ragnar Ólafsson GR 1
1976 Þorbjörn Kjærbo GS 1
1977 Björgvin Þorsteinsson GA 2
1978 Gylfi Kristinsson GS 1
1980 Hannes Eyvindsson GR 1
1981 Ragnar Ólafsson GR 2
1982 Sigurður Pétursson GR 1
1983 Gylfi Kristinsson GS 2
1984 Sigurður Pétursson GR 2
1985 Sigurður Pétursson GR 3
1986 Úlfar Jónsson GK 1
1987 Úlfar Jónsson GK 2
1988 Úlfar Jónsson GK 3
1989 Úlfar Jónsson GK 4
1990 Úlfar Jónsson GK 5
1991 Karen Sævarsdóttir GS 1
1992 Úlfar Jónsson GK 6
1993 Þorsteinn Hallgrímsson GV 1
1994 Sigurpáll Geir Sveinsson GA 1
1995 Björgvin Sigurbergsson GK 1
1996 Birgir Leifur Hafþórsson GL 1
1997 Birgir Leifur Hafþórsson GL 2
1998 Björgvin Sigurbergsson GK 2 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 1
1999 Örn Ævar Hjartarson GS 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 1
2000 Björgvin Sigurbergsson GK 3 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 2
2001 Örn Ævar Hjartarson GS 2 Herborg Arnardóttir GR 1
2002 Sigurpáll Geir Sveinsson GA 2 Ólöf María Jónsdóttir GK 2
2003 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 3 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 3
2004 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 4 Ólöf María Jónsdóttir GK 3
2005 Heiðar Davíð Bragason GKj. 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 4
2006 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 5 Nína Björk Geirsdóttir GKj. 1
2007 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 6 Nína Björk Geirsdóttir GKj. 2
2008 Hlynur Geir Hjartarson GOS 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 5
2009 Ólafur Björn Loftsson NK 1 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 1
2010 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 7 Tinna Jóhannsdóttir GK 1
2011 Ólafur Björn Loftsson NK 1 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 1
2012 Haraldur Franklín Magnús GR 1 ÓIafía Þórunn Kristinsdóttir GR 2
2013 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 8 Sunna Víðisdóttir GR 1
2014 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 9 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 3
2015 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 10 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 4
2016 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 11 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 5
2017 Axel Bóasson GK 1 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 6
2018 Haraldur Franklín Magnús GR 2 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 2
2019 Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR 1 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 3
2020 Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR 2 Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK 1
2021 Haraldur Franklín Magnús GR 3 Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK 2