Fréttir

Guðrún og Valdís hefja leik í Suður-Afríku á morgun
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 11. mars 2020 kl. 10:00

Guðrún og Valdís hefja leik í Suður-Afríku á morgun

Evrópumótaröð kvenna fer af stað á nýjan leik á morgun eftir stutt hlé þegar Investec South African Women's Open mótið hófst. Eins og nafnið gefur til kynna fer mótið fram í Suður-Afríku og verða þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir báðar á meðal keppenda. Leikið er á Westlake vellinum sem staðsettur er í Höfðaborg.

Guðrún Brá hefur leik klukkan 9:10 að staðartíma, sem er 7:10 að íslenskum tíma, og byrjar hún á fyrstu holu. Með henni í holli eru þær Jessica Dreesbeimdieke og Isabelle Boineau. Þetta er þriðja mótið á tímabilinu sem Guðrún leikur í. Hún komst í gegnum niðurskurðinn í síðasta móti og endaði þá í 65. sæti.

Valdís hefur leik eftir hádegi á morgun eða klukkan 12:44 að staðartíma, sem er 10:44 að íslenskum tíma. Með henni í holli eru þær Eleanor Givens og Caroline Rominger og hefja þeir leik á 10. holu. Valdís hefur einnig leikið í tveimur mótum og kom besti árangur hennar í síðasta móti þegar að hún endaði jöfn í 21. sæti.

Hægt verður að fylgjast með skori keppenda hérna.


Guðrún Brá Björgvinsdóttir.