Guðrún þrjú högg frá niðurskurði - Andrea í 37. sæti
Guðrún Brá Björgvinsdóttir komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Jabra Ladies Open á Evrópumótaröðinni en leikið var á Evian Resort golfvellinum í Frakklandi.
Guðrún lék báða hringina á þremur yfir pari, 74-74 og var þrjú högg frá niðurskurðinum. Hún lenti í vandræðum á 11. brautinni þar sem hún tapaði þremur höggum. Tveir fuglar á lokakaflanum dugðu ekki.
Þetta er annað mótið Hafnfirðingsins á LET mótaröðinni, en hún er efsta deild kvenna í Evrópu.
Þær Ragnhildur Kristinsdóttir og Andra Bergsdóttir voru meðal þátttakenda á móti á LET Access mótaröðinni, sem er næsta „deild“ fyrir neðan Evrópumótaröðina. Leikið var á Sudburgenland golfsvæðinu í Austurríki. Andrea endaði í 37. sæti á +9 en sigurvegarinn var á -3. Hún lék hringina þrjá á 72-70-77 en aðstæður voru erfiðar og völlurinn blautur. Ragnhildur Kristinsdóttir komst ekki í gegnum niðurskurðinn en hún lék fyrri 18 holurnar á 87 höggum og var í miklum vandræðum. Hún náði frábærum næsta hring á 68 höggum en það dugði ekki til að komast áfram.