Fréttir

Haraldur færist nær þátttökurétti á Áskorendamótaröðinni
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 23. ágúst 2019 kl. 17:30

Haraldur færist nær þátttökurétti á Áskorendamótaröðinni

Þegar sjö mót eru eftir af tímabilinu á Nordic Golf mótaröðinni er Haraldur Franklín Magnús í sjötta sæti á stigalista mótaraðarinnar. 

Haraldur náði sínum þriðja besta árangri á tímabilinu í dag þegar hann endaði í 3. sæti á Esbjerg Open og fór fyrir þann árangur upp um tvö sæti á stigalistanum og nálgast nú fimm efstu sætin og þar með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni.

Tímabilið hjá Haraldi fór nokkuð furðulega af stað en eftir sjö mót á mótaröðinni hafði hann þrisvar endað í einu af tíu efstu sætunum en í þokkabót ekki komist í gegnum niðurskurðinn í þremur mótum.

Síðan þá hefur spilamennskan verið mun stöðugri og hann komist í gegnum niðurskurðinn í níu af síðustu tíu mótum og endað sex sinnum meðal tíu efstu.


Árangur Haralds á tímabilinu.

Eins og áður hefur komið fram er Haraldur kominn upp í 6. sæti á stigalistanum en fimm kylfingar öðlast þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni lok tímabils. Þess ber að geta að þrátt fyrir að tveir kylfingar séu nú þegar búnir að tryggja sér þátttökurétt með því að vinna þrjú mót eru bara fimm sæti í boði.

Haraldur verður næst í eldlínunni þann 29. ágúst þegar Timberwise Finnish Open mótið hefst en það er næsta mót á mótaröðinni.

Staða efstu kylfinga á Nordic Golf mótaröðinni:

1. Christopher Sahlström, 35.236 stig (4 sigrar og því kominn með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni)
2. Niklar Nörgaard Möller, 34.880 stig
3. Elias Valas Falkener Bertheussen, 30.747 stig
4. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, 26.721 stig (3 sigrar og því kominn með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni)
5. Nicolai Buchwardt, 25.593 stig
6. Haraldur Franklín Magnús, 21.484 stig
14. Axel Bóasson, 13.786 stig

Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalista mótaraðarinnar.