Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst leika á Áskorendamótaröðinni
Áskorendamótaröð Evrópu heldur áfram á morgun og eru okkar menn komnir til Suður-Afríku á SDC Open. Mótið er leikið á tveimur völlum; Zebula Golf Estate & Spa og Elements Private Golf Reserve.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, tók þátt í fyrsta móti sínu á keppnistímabilinu, Manguang Open í Suður-Afríku í upphafi mánaðarins, en komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Haraldur Franklín Magnús, GR, hefur leikið í þremur mótum af fjórum í ár en hann tók sér frí eftir Jonsson Workwear Open í lok febrúar, en hann hafnaði í þriðja sæti í mótinu á 19 höggum undir pari.
Kylfingur tók þá félaga tali í dag.
Haraldur segist geta byggt á spilamennsku sinni á síðasta móti. Það hafi verið ákveðinn stígandi í hans leik. Hann segist einnig hafa loksins spilað vel í Suður-Afríku, sem sé ekkert sjálfgefið.
„Það eru allt aðrar aðstæður hérna úti en maður er vanur. Það er t.a.m. stórfurðulegt hvað boltinn flýgur langt hérna og þó að ég hafi spilað hér áður er ótrúlega erfitt að venjast því“, segir Haraldur Franklín, en vellirnir eru í u.þ.b. 1.200 og 1.400 metra hæð yfir sjávarmáli.
Haraldur segir vellina í toppstandi enda hafi rignt duglega undanfarið. „Ég er búinn að spila annan völlinn og fer á hinn á morgun. Það þarf reyndar að varast það að í glompunum er svolítið af steinum svo það getur verið erfitt að stýra flugi boltans úr glompunum.“
Þá segir Haraldur litríkt dýralíf vera á svæðinu. „Hér eru villigrísir, sebrahestar, antilópur og alls konar dýr með alls konar horn. Mig langar ekkert að hugsa mikið um þau dýr sem mögulega fela sig í háa grasinu.“
Haraldur segist vel stemmdur fyrir mótinu. „Ég er reyndar í smá veseni með puttann á mér, smávægileg meiðsli. Hann verður bara teipaður vel og þá ætti allt að vera í fínu lagi.“
Guðmundur Ágúst, segir að hann sé enn að vinna í því að koma sér í sitt besta form. Hann lenti í meiðslum fyrir rúmu ári síðan svo hann gat lítið æft í fyrra.
„Ég hef oft verið í betra formi á þessum tíma árs, bæði hvað tæknileg atriði varðar og leikform. Ég reyni að vera stóískur og fer bara út á völl og reyni að gera mitt besta.“
Guðmundur vill undirstrika það hversu merkilegum árangri Haraldur, félagi hans, náði á Jonsson Workwear Open því Evrópubúar eigi oft erfitt með að fóta sig á golfvellinum í þessum heimshluta.
„Grasið er t.d. allt öðruvísi en við eigum að venjast. Þess vegna sjáum við oft Suður-Afríkumennina gera mjög vel á þessum mótum. Sömu menn eru svo kannski ekkert svo góðir í Evrópu eða Bandaríkjunum.
Haraldur verður ræstur út upp úr klukkan 6 í fyrramálið á íslenskum tíma, frá 10. teig Elements Private vallarins en Guðmundur upp úr klukkan 12 á hádegi frá 10. teig Zebula Gofl svæðisins.