Fréttir

Haraldur í 8. sæti fyrir lokahringinn
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 10. október 2019 kl. 12:30

Haraldur í 8. sæti fyrir lokahringinn

Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson eru búnir með tvo hringi af þremur á lokamóti tímabilsins á Nordic Golf mótaröðinni sem fram fer í Eistlandi. Fyrir lokahringinn er Haraldur í 8. sæti og Axel í 21. sæti.

Haraldur hefur leikið fyrstu tvo hringi mótsins samtals á 10 höggum undir pari en skor keppenda er gríðarlega gott. Kylfingur greindi frá fyrr í vikunni að Haraldur þyrfti að enda fyrir ofan Nicolai Buchwardt í lokamótinu til þess að tryggja sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni. Hins vegar, miðað við nýjustu grein á heimasíðu mótaraðarinnar, hefur verið vikið frá þeirri reglu sem sett var 2017 og geta nú fleiri en fimm kylfingar tryggt sig á Áskorendamótaröðina fari svo að kylfingur sem vinnur þrisvar á tímabilinu endar ekki í topp-5. Því er sæti Haralds á Áskorendamótaröðinni endanlega tryggt, óháð frammistöðu hans á morgun.


Skorkort íslensku strákanna.

Axel er líkt og fyrr segir jafn í 21. sæti í mótinu á 5 höggum undir pari í heildina. Hann lék annan hringinn á parinu og fór þrátt fyrir það niður um 13 sæti.

Svíarnir Mikael Lindberg og Christopher Sahlström eru jafnir í efsta sæti á 16 höggum undir pari, sex höggum á undan Haraldi.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.