Fréttir

Haraldur í fjórða sæti stigalistans fyrir lokamótið
Haraldur Franklín Magnús. Mynd: [email protected]
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 7. október 2019 kl. 08:00

Haraldur í fjórða sæti stigalistans fyrir lokamótið

Nú þegar eitt mót er eftir af tímabilinu á Nordic Golf mótaröðinni eru línur farnar að skýrast á stigalista mótaraðarinnar.

Fyrir tímabilið var það gefið út að fimm efstu kylfingarnir á stigalistanum í lok tímabils myndu öðlast þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni. Þar að auki væri hægt að tryggja sér þátttökurétt á þeirri mótaröð með því að sigra á þremur mótum, óháð stöðu á stigalista.

Þeir Christopher Sahlström og Guðmundur Ágúst Kristjánsson hafa báðir sigrað á að minnsta kosti þremur mótum og eru því komnir með þátttökurétt á þessari næst sterkustu mótaröð Evrópu. Sé miðað við heimasíðu mótaraðarinnar eru því einungis þrjú sæti í boði til viðbótar þar sem að hámarki fimm einstaklingar geta fengið þátttökurétt í gegnum Nordic Golf mótaröðina.

Þar sem Guðmundur Ágúst er í 6. sæti stigalistans lítur allt út fyrir að Haraldur þurfi að enda í 4. sæti á stigalistanum til þess að komast á Áskorendamótaröðina en hann er einmitt í því sæti fyrir lokamótið. Haraldur er með 32.005 stig, 2.605 stigum meira en Nicolai Kristensen sem er í fimmta sæti. 

Tímabilið hjá Haraldi hefur verið virkilega gott en hann á einungis eftir að sigra á mótaröðinni til að toppa það. Alls hefur GR-ingurinn endað fjórum sinnum í 2. sæti og 11 sinnum í topp-10 í 21 tilraun.

Til þess að Haraldur öðlist þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni má hann einfaldlega ekki fá 2.605 stigum minna en Kristensen í lokamótinu sem fer fram dagana 9.-11. október. Til að setja það í samhengi þá eru 2.641 stig fyrir 3. sætið í mótinu og því ljóst að ef Daninn endar neðar en í 3. sæti er þátttökurétturinn klár hjá Haraldi.

Auk þeirra Haralds og Guðmundar verður Axel Bóasson með í lokamótinu en hann er í 19. sæti á stigalistanum fyrir lokamótið. Axel getur ekki endað í topp-5 þetta árið þrátt fyrir sigur í lokamótinu en hann endaði stigameistari á mótaröðinni árið 2017.

Staða efstu manna á stigalista Nordic Golf mótaraðarinnar:

1. Niklas Norgaard Moller, 44.598 stig
2. Christopher Sahlström, 41.122 stig (búinn að sigra á 4 mótum)
3. Elias Valas Falkener, 36.858 stig
4. Haraldur Franklín Magnús, 32.055 stig
5. Nicolai Buchwardt Kristensen, 29.400 stig
6. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, 27.165 stig (búinn að sigra á 3 mótum)
19. Axel Bóasson, 14.491 stig

Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalistanum.