Fréttir

Miklar framkvæmdir og góður rekstur hjá GR
Íslandsmót í golf snýr aftur á Korpuna. Völlurinn verður lengdur með nokkrum nýjum bakteigum.
Miðvikudagur 10. desember 2025 kl. 08:43

Miklar framkvæmdir og góður rekstur hjá GR

Miklar framkvæmdir voru á árinu hjá Golfklúbbi Reykjavíkur en aðalfundur GR var haldinn á Korpúlfsstöðum í byrjun mánaðarins og mættu 160 félagsmenn á fundinn. Formaður félagsins, Gísli Guðni Hall, var kjörinn áframhaldandi formaður en hann hefur nú sitt fimmta ár í framlínu GR. Rekstur gekk vel og hagnaður nam 76,4 milljónum kr. Hátt í 20% aukning var í leiknum hringjum á völlum GR. Klúbburinn mun halda Íslandsmót í golfi á næsta ári á Korpunni.

Greint er frá málinu á heimasíðu GR og sjá má hér að neðan:

Sitjandi stjórnarmenn í aðalstjórn, kosin á aðalfundi 2024 eru Brynjar Jóhannesson, Kristín Eysteinsdóttir og Ólafur William Hand. Kosið var þrjú sæti til tveggja ára í aðalstjórn á nýliðnum aðalfundi, sjálfkjörin var Elín Sveinsdóttir. Guðmundur Arason fékk áframhaldandi kosningu til tveggja ára.  Þá var kosinn Hrannar M. Hallkelsson, en hann var í varastjórn..

Margeir Vilhjálmsson gaf ekki kost á sér, en hann hefur setið í stjórn frá árinu 2014.  Gísli þakkaði honum fyrir góð störf, en fáir hafa komið jafn mikið við sögu í rekstri og stjórn klúbbsins á þessari öld.  Hann réði sig sem vallarstjóri í Grafarholti 1995 og síðan framkvæmdastjóri GR á árunum 1998 til 2008.  Hann var kosinn í stjórn GR 2014 og hefur setið þar til nú.  Gísli þakkaði honum fyrir ómetanleg störf og stuðning.

Rekstur klúbbsins gekk vel á starfsárinu 2024-2025 og námu tekjur alls 878 milljónum króna og rekstrarafgangur 76,4 milljónir. Heildareignir nema 1.839 milljónum króna og eiginfjárstaðan sem og lausafjárstaðan er sterk. Á rekstrarárinu störfuðu 18 heilsársstarfsmenn hjá klúbbnum og að auki 75 sumarstarfsmenn. Að öðru leyti vísar stjórn klúbbsins til meðfylgjandi ársreiknings um rekstur og fjárhagsstöðu.

Golfklúbbur Reykjavíkur annast rekstur 18 holur golfvallar og 6 holu æfingavallar í Grafarholti ásamt rekstri 36 holu golfvallar (4×9, þ.e. Sjórinn, Áin, Landið og Thorsvöllur) á Korpúlfsstöðum. Enn fremur rekur klúbburinn æfingaaðstöðu Bása í Grafarholti auk inniæfinga- og félagsaðstöðu á Korpúlfsstöðum.

Eins og undanfarin ár voru miklar framkvæmdir á vallarsvæðum félagsins á starfsárinu. Í Grafarholti var það lokafrágangur á nýrri 1. flöt, uppbygging á nýrri 3. flöt og uppbygging á nýju teigum á 4. braut. Uppbygging á nýrri 11. flöt og hafist var handa við uppbyggingu og sléttun og endurmótun 1. brautar.  Það á eftir að tyrfa brautina en framkvæmdinni er lokið að öðru leyti.  Samhliða þessum framkvæmdum var komið upp nýju salerni við 6. teig og í vetur mun öðru slíku verða komið fyrir í rjóðrinu á milli 13. og 15. brautar.

Stærstu framkvæmdir á Korpu á liðnu starfsári var áframhaldandi malbikun stíga á Ánni og Landinu ásamt frágangi við stígagerð, hellulögn og uppstigum við teiga. Þessi verkefni hafa verið samhangandi.  Í vetur hefst svo lokafrágangur á þeim hluta sem eftir stendur við 26. og 27. braut, sem er lítið í samanburði við það sem nú er lokið.  Byggðir voru upp fimm  nýir teigar, á 3., 5., 8. og 23. braut. Ný púttflöt við Korpu sem hefur verið í uppbyggingu síðastliðin tvö ár var formlega tekin í notkun í upphafi tímabilsins. Sama á við um Korpu og í Grafarholti að ný salerni voru tekin í notkun. Á Korpu eru þau staðsett á 6. teig og við 15. og 23. teig. Áframhaldandi vinna við að koma upp slátturþjónum hélt áfram og er þeirri vinnu lokið fyrir Landið.

Fjárhagsáætlun GR 2026 var samþykkt.  Félagsgjöld 2026 verða:

Félagsmenn 19-26 ára, kr. 87.900
Félagsmenn 27-74 ára, kr. 175.700
Félagsmenn 75 og eldri, kr. 150.600
Félagsmenn 75 ára og eldri*, kr. 113.000
*enda hafi félagi verið í GR í a.m.k. 10 ár samfellt

Leiknir hringir á árinu voru 107.897 samanborið við 93.309 á árinu á undan. Félagsmenn léku 5.410 hringi á vinavöllum félagsins og vinavallasamningar því vel nýttir í ár. TagMarshal er nýtt kerfi sem tekið var í notkun fyrir tveimur árum.  Stykki með staðsetningarbúnaði, sem kylfingar taka með sér út á völl, verða eftirleiðis nefnd spori.  Hugmyndin er fengin frá góðum félagsmanni, Jóni Hermanni Karlssyni, en nokkrar fleiri góðar höfðu komið fram.  Allt frá stofnun klúbbsins hefur mikið verið lagt upp úr að finna nýyrði fyrir orð í ensku golfmáli og þeirri hefð viljum við viðhalda.  Tagmarshal kerfið hefur annars reynst okkur afar vel, það gefur starfsmönnum og eftirlitsmönnum upplýsingar um stöðu leiktíma á völlum félagsins. Meðal leikhraði á Korpu í ár var 4:10.47 og í Grafarholti var meðal leikhraði 4:13:17 – miðast þessir tímar við 18 holu leik. Kynjahlutfall í klúbbnum er 35% konur á móti 65% karla og stendur í stað á milli ára.

Á komandi ári er fyrirhugað að halda áfram framkvæmdum.  Helstu framkvæmdir í Grafarholti verða – opnun nýrrar 1. brautar, uppbygging á nýjum teigum og glompum á 3. braut, opnun nýrrar 3. flatar síðla sumars, uppbygging á nýrri 10. flöt ásamt nýjum teigum fyrir 11. braut, sem farið verður í næstkomandi haust.

Á Korpúlfsstöðum verður Íslandsmót 2026 haldið.  Fyrir mótið verður allri stígagerð og frágangi þeim tengdum lokið.  Nokkrir nýir bakteigar hafa verið gerðir, í því augnamiði að gera völlinn að enn meira krefjandi keppnisvelli.  Gengið verður frá nýju útiplássi og þrifaðstöðu framan við skála.

Stefnt að því að hefja uppbyggingu á nýrri vélageymslu/þjónustuhúsi á Korpu árið 2026, en það er háð skilyrðum um leyfi og ásættanlega fjármögnun.

Í Básum er fyrirhugað að gera nýtt þjónusturými þar sem komið er inn í Bása og klæða skilrúm á 1. og 2. hæð til að fyrirbyggja slysahættu.

Golfklúbbur Reykjavíkur þakkar Árna Tómassyni og Guðmundi Frímannssyni, endurskoðendum, fyrir sína vinnu og kjörnefnd fyrir sitt starf.  Sérstakar þakkir færum við Ólafi Arinbirni Sigurðssyni fyrir faglega og góða fundarstjórn og félagsmönnum fyrir sína þátttöku.

Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár.