Fréttir

Ný ofurstjarna í golfinu þurfti oft að klípa sig í handlegginn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 29. janúar 2026 kl. 12:01

Ný ofurstjarna í golfinu þurfti oft að klípa sig í handlegginn

Blades Brown er nafn sem mjög fáir kannast við í atvinnugolfi enda aðeins 18 ára skólastrákur sem hætti við að halda áfram í háskólagolfi og ákvað að reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Hann fékk alvöru lexíu Scottie Scheffler, besta kylfngi heims, á lokadegi American Express mótsins á PGA mótaröðinni síðasta sunnudag. Þessi 18 ára piltur sem gæti í raun enn verið í skólabekk. Blades átti ekki sinn besta lokahring, en það skyggði ekki á eitt magnaðasta rúmlega vikulanga tímabil í sögu golfsins, þar sem hann lék átta daga í röð á tveimur mótaröðum. Hann endaði jafn í 17. sæti á Bahamas á Korn Ferry Tour móti sem er 2. deildin í Bandaríkjunum og endaði svo jafn 18. sæti í Palm Springs á móti á PGA mótaröðinni, eftir að hafa leikið 60 högg á föstudegi og tryggt sér sæti í lokapari sunnudagsins. Átta keppnishringir í röð.

Hér er efni í næstu stórstjörnu atvinnugolfs. Og hann er strax farinn að nota einkaþotu. Eða þannig. Alla vega þurfti hann að komast af Korn Ferry mótinu á miðvikudegi til að hefja leik daginn eftir á PGA móti sem hann fékk boð í. Alveg ótrúlegt.

„Ég kláraði hringinn á Bahamas og þurfti að skella mér í snögga sturtu og keyrði svo beint á flugvöllinn,“ sagði Brown. „Svo fór ég um borð í risastóra OneFlight-þotu. Flugið tók sex klukkustundir. Þetta var í annað sinn á ævinni sem ég flaug með einkaþotu. Það var stórkostlegt. Ég kom um klukkan átta á miðvikudagskvöldi. Fékk mér Panda Express. Keypti mér smá í matinn. Fór að sofa um tíuleytið. Vaknaði svo um fimm og fór á púttflötina til að aðlagast ólíkum aðstæður frá hinu mótinu, því þær voru gjörólíkar.“

PGA mótaröðin setti einnig saman skemmtilegt myndband sem sýnir ævintýralegan dag Browns, þar sem hann segir meðal annars frá því að hann hafi tekið lokapróf í ensku og hagfræði daginn áður en hann hóf leik á Bahamas til að ljúka framhaldsskóla.

Í flóði rauðra skora á fimmtudag á American Express mótinu vakti opnunarhringur Browns, 67 högg, ekki sérstaka athygli. En þegar tekið er tillit til ótrúlegrar viku hans verður árangurinn mun áhrifameiri.

Daginn áður en hann sló upphafshöggið á Bahamas lauk Blades lokaprófum sínum í ensku og hagfræði til að útskrifast úr framhaldsskóla. Hagfræðin mun án efa nýtast honum vel.

Hefði hann sett niður púttið sitt fyrir fugl á 72. holu á sunnudag á PGA West hefði hann komist í topp tíu, tryggt sér þátttökurétt á Farmers Insurance Open í næstu viku og haldið rússíbanareiðinni áfram. En hann þrípúttaði og missti af tækifæri til að leika á PGA móti vikuna á eftir.

Brown er hungraður í meira – og hver skyldi lasta hann fyrir það? Eftir það sem hann sýndi í síðustu viku er líklegt að fleiri tækifæri bíði hans..

„Ég gæti líklega skrifað bók um það sem ég hef lært síðustu daga,“ sagði Brown. „Bara það að vita að ég geti keppt á þessu stigi.“

Úrslitin voru þrátt fyrir allt smá vonbrigði í annars sögulegri viku fyrir unglingspiltinn. Einu höggi á eftir forystusauðnum í mótinu eftir 54 holur, eftir að leikið á 60 höggum og hafa sett vallarmet, hélt Brown sér í baráttunni þar til upphafshögg hans í lokahringnum á fimmtu holu lenti í vatni. Hann fékk tvöfaldan skolla, datt aftur úr og náði sér ekki á strik á ný. Með skolla á lokaholunni endaði Brown jafn í 18. sæti. Þetta er besti árangur hans á ferlinum í tíu PGA mótum. Verðlaunafé hans, 93.000 dollarar, er tæplega 40.000 dollurum meira en hæsta greiðsla hans áður.

„Ég tek ótrúlega margt með mér úr þessari viku. Að fá að spila með Scottie Scheffler í lokaráshópi, aðeins 18 ára gamall – ég þurfti oft að klípa mig í handlegginn til að vera viss um að þetta væri raunverulegt,“ sagði Brown.

Lífið hefur tekið hraða beygju fyrir Brown. Hann lék á sínu fyrsta atvinnumannamóta á þessu móti fyrir ári síðan, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann hafnaði háskólagolfi og gerðist atvinnumaður strax. Þá hafði hann engan keppnisrétt á neinni mótaröð. Nú er hann fastur leikmaður á Korn Ferry, og vika eins og þessi styrkir trú hans á að PGA kort sé ekki langt undan.

Sunnudagurinn minnti hann þó líka á hversu margt hann á enn eftir að læra. Að fylgjast með Scheffler er í þeim efnum eins og að sitja meistaranámskeið í því hvernig vinna á golfmót. Brown dáðist að stuttaspils leik Schefflers og hæfni hans til að klára mót. Þetta eru lærdómar sem Brown vonast til að taka með sér áfram.

Brown viðurkenndi að hann væri þreyttur eftir lokahringinn á sunnudag, en sagði að það hefði ekki haft áhrif á leik sinn. Samt sem áður er síðasta vika mikil keyrsla fyrir hvern sem er.

Árangurinn styrkti enn frekar ákvörðun Browns um að gerast atvinnumaður strax úr framhaldsskóla í stað þess að fylgja þeirri leið sem margir velja nú, að spila háskólagolf. Brown endaði í 68. sæti á stigamótaröð Korn Ferry Tour árið 2025. Hann þarf að enda meðal 20 efstu á þessu tímabili til að tryggja sér PGA Tour kort fyrir árið 2027.

„Allir hafa sína leið og ég er að hlaupa mitt hlaup,“ sagði Brown. „En ég held að það sé mikið af frábæru ungum kylfingum á uppleið, og mér kæmi ekki á óvart að við sæjum annan áhugamann blanda sér í toppbaráttuna.“