Fréttir

Haraldur vonast til að sjá forseta og dómsmálaráðherra á golfmóti í Kína
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 12. október 2025 kl. 12:54

Haraldur vonast til að sjá forseta og dómsmálaráðherra á golfmóti í Kína

„Þetta var smá barningur. Margt gott en aftur á móti margt lélegt. Ég hef oft spilað í miklum hita, en held að ég nái aldrei að venjast þessum gríðar mikla raka. Það spáir aðeins minni hita í næsta móti hér í Kína en samt 36 gráðum og mjög miklum raka, eitthvað sem við Íslendingar eru ekki vanir,“ segir Haraldur Franklín, atvinnukylfingur eftir að hafa leikið á Hainan mótinu á Áskorendamótaröðinni í samnefndri borg í Kína.

Haddi var tveimur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn og lék á 74-71 (+1).

„Ef mér gengur vel í næsta móti gæti ég sloppið við að fara á 2. stigið í úrtökumótunum en annars verður það raunin í lok október. Svo ég verð að spila ákveðið. Það væri gaman að fá heimsókn frá Höllu forseta og Þorbjörgu dómsmálaráðherra en þær verða í Sjanghæ sem er stutt frá borginni Hangzhou sem næsta mót er í. Íslenski fáninn verður tilbúinn á stönginni á mótinu og ég býð þeim formlega að kíkja og tek á móti þeim,“ sagði Haraldur en það er alltaf stutt í húmorinn hjá okkar manni.

Haraldur var í góðum gír þrátt fyrir að hafa ekki komist í gegnum niðurskurðinn, í fyrsta sinn á þessari keppnistíð á mótaröðinni. Þar hefur hann best náð 2. sæti og er nú í 62. sæti. Hann segir að nú þegar sé hann búinn að tryggja sér góðan þátttökurétt á mótaröðinni á næsta ári en geti bætt hann með góðri frammistöðu í útrökumótunum.

Haddi segir að það hafi verið skemmtilegt í æfingahringjunum fyrir mótið að hann hafi spilað með tveimur Kínverjum sem báðir höfðu verið í skólaliðum með íslenskum kylfingum, annar með Sigurði Bjarka Blumenstein í Virginíu og hinn með Stefáni Þór Bogasyni í Flórida. Svo spilaði hann í mótinu með Bandaríkjamanni sem var með Huldu Klöru í golfliði.

„En næsta mót er aftur hér í Kína, borginni Hangzhou, sem er 3 tíma flug í burtu. Borg sem enginn hefur heyrt um en þar búa yfir 10 milljónir manna,“ sagði Haraldur og hló.