Fréttir

Harrington bætti sig um 11 högg á seinni níu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 21. maí 2023 kl. 15:27

Harrington bætti sig um 11 högg á seinni níu

Írinn og þrefaldur risameistarinn Patraig Harrington stóð sig vel á PGA risamótinu og komst leikandi í gegnum niðurskurðinn. Á þriðja hringnum náði hann því að vera verstur og bestur. 

Það urðu miklar sveiflur hjá kappanum á þriðja deginum en þá lék hann fyrri níu holurnar á 8 yfir pari (43 högg) sem var versta skorið á þeim parti hjá öllum keppendum. Á seinnni níu bætti hann sig heldur betur og lék þá best allra eða á -3 (32 högg.)

„Ég lék þokkalegt golf á fyrri níu holunum en skoraði herfilega en lék aðeins betur á seinni níu og skoraði frábærlega. Svona er golfið stundum,“ sagði Írinn á samfélagsmiðlum.

Harrington er kominn yfir fimmtugt og lék best allra eldri kylfinga í fyrra, vann nokkur mót og lék flott golf. Hann á glæstan feril að baki í atvinnugolfi en hann vann m.a. þrjá risatitla á ferlinum, tvisvar í röð á Opna mótinu 2007 og 2008 og síðan á PGA. Þá hefur hann margoft leikið með Ryderliði Evrópu og einu sinni verið einvaldur þess.