Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Heimslisti karla: Westwood á meðal 50 efstu á ný
Lee Westwood.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 20. janúar 2020 kl. 20:00

Heimslisti karla: Westwood á meðal 50 efstu á ný

Heimslisti karla hefur verið uppfærður eftir mót helgarinnar og eru nokkrar breytingar á efstu mönnum. Tiger Woods fer til að mynda upp fyrir Patrick Cantlay og eru þeir nú í sjötta og sjöunda sætinu. Justin Rose fer einnig upp fyrir Xander Schauffele og eru þeir því í áttunda og níunda sætinu.

Brooks Koepka er sem fyrr í efsta sætinu en nú er komið á hreint að Rory McIlroy getur komist upp fyrir Koepka með sigri um helgina á Farmers Insurance Open mótinu sem hefst á fimmtudaginn á PGA mótaröðinni.

Fyrrum efsti maður heimslistans, Lee Westwood, vann sitt 25. mót á Evrópumótaröðinni í gær þegar að hann bar sigur úr býtum á Abu Dhabi HSBC Championship mótinu. Við það komst Westwood aftur á meðal 50 efstu og situr hann nú í 29. sæti listans en var fyrir helgina í 63. sæti.


Andrew Landry.

Andrew Landry vann sitt annað mót á PGA mótaröðinni í gær þegar að hann fagnaði sigri á The American Express mótinu. Hann fór upp um 133 sæti milli vikna og er nú í 107. sæti en fyrir helgi var hann í 240. sæti.


Matt Kuchar.

Að lokum fer Matt Kuchar upp um fjögur sæti milli vikna en hann stóð uppi sem sigurvegari á Singpore Open mótinu. Hann er nú í 20. sæti en var í 24. sæti fyrir sigurinn.

Heimslistann í heild sinni má nálgast hérna.