Fréttir

Ótrúleg uppsveifla Brendon Todd síðustu vikur og mánuði
Brendon Todd.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 19. nóvember 2019 kl. 12:00

Ótrúleg uppsveifla Brendon Todd síðustu vikur og mánuði

Það má með sanni segja að Brendon Todd hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undanfarnar vikur og mánuði. Um tímabil árið 2018 var Todd í 2043. sæti heimslistans og í lok árs 2018 var hann í 2006. sæti. Með ágætis spilamennsku á Korn Ferry mótaröðinni kom Todd sér upp í 522. sætið og var hann því sæti eftir Houston Open mótið sem leikið var í október.

Todd vann síðan sitt fyrsta mót í rúmlega 5 ár í byrjun nóvember þegar hann fagnaði sigri á Bermuda Championship mótinu. Þá fór Todd upp í 185. sæti heimslistans. 

Í gær vann Todd svo sitt annað mót á stuttum tíma á PGA mótaröðinni þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á Mayakoba Golf Classic mótinu. Eftir sigurinn er Todd kominn í 83. sæti heimslistans og hefur hann því farið upp um 1932 sæti á þessu ári. 

Todd er nú með öruggan þátttökurétt á PGA mótaröðinni út árið 2023 þar sem einn sigur gefur tveggja ára þátttökurétt og hver sigur eftir það bæti við einu ári, þó að hámarki fimm ár.