Fréttir

Heimslisti karla: Campillo á meðal 100 efstu
Jorge Campillo.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 9. mars 2020 kl. 17:30

Heimslisti karla: Campillo á meðal 100 efstu

Heimslisti karla hefur verið uppfærður. Rory McIlroy er sem fyrr í efsta sætinu en eins og greint var frá fyrr í dag hefur hann nú verið í efsta sætinu í samtals 100 vikur á sínum ferli.

Webb Simpson og Patrick Reed fara báðir upp um eitt sæti en þeir eru nú í sætum sjö og átta. Adam Scott fer niður um eitt sæti og er kominn í það níunda.

Sigurvegari Arnold Palmer Invitational mótsins, Tyrrell Hatton, fer upp um 10 sæti á nýjum lista. Hann er kominn í 22. sætið eftir sigur gærdagsins en fyrir helgi var hann í 32. sæti. Hatton hefur hæst komist í 13. sæti og er hann því enn töluvert frá því að ná að bæta það.

Jorge Campillo sem fagnaði sigri á Commercial Bank Qatar Masters mótsins á Evrópumótaröðinni er kominn á meðal 100 efstu eftir sigurinn. Fyrir helgi var hann í 125. sæti en er nú kominn í 84. sæti.

Heimslistann í heild sinni má nálgast hérna.


Tyrrell Hatton.