Fréttir

Heimslisti karla: Staða íslensku kylfinganna
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 9. febrúar 2021 kl. 10:35

Heimslisti karla: Staða íslensku kylfinganna

Líkt og Kylfingur greindi frá á mánudaginn er Dustin Johnson sem fyrr í efsta sæti heimslistans eftir að hann var uppfærður á sunnudaginn.

Af íslensku atvinnukylfingunum er Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR efstur en hann situr í 535. sæti með 0,24 stig. Guðmundur hefur ekki spilað á atvinnumóti frá því í lokamóti Áskorendamótaraðarinnar í fyrra en fyrstu mótum ársins 2021 var frestað vegna Covid-19.

Guðmundur hefur nú verið efstur Íslendinga á listanum í töluverðan tíma en hann komst hæst upp í 508. sæti á listanum.

Haraldur Franklín Magnús er næst efstur og situr í 685. sæti með 0,15 stig. Líkt og Guðmundur leikur Haraldur á Áskorendamótaröðinni og hefur því ekki enn spilað á móti á þessu ári. Haraldur lék síðast á Andalucia Challenge de Cadiz og endaði þar í 14. sæti.

Axel Bóasson GK er þriðji af íslensku kylfingunum en hann er í 1324. sæti með 0,03 stig. Biðin hefur verið enn lengri fyrir Axel sem leikur á Nordic Golf mótaröðinni en hann spilaði síðast á þeirri mótaröð árið 2019. Í samtali við blaðamann Kylfings á dögunum sagðist hann stefna á fulla þátttöku á mótaröðinni í ár þegar hún færi aftur af stað.

Staða íslenskra atvinnukylfinga á heimslista karla í golfi:

535 - Guðmundur Ágúst Kristjánsson
685 - Haraldur Franklín Magnús
1324 - Axel Bóasson
1829 - Birgir Leifur Hafþórsson
1829 - Andri Þór Björnsson
1829 - Bjarki Pétursson
1829 - Rúnar Arnórsson
1829 - Ragnar Már Garðarsson