Fréttir

Heimslisti kvenna: Guðrún Brá upp um 88 sæti
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 24. nóvember 2020 kl. 20:48

Heimslisti kvenna: Guðrún Brá upp um 88 sæti

Jin Young Ko heldur efsta sæti heimslistans eftir Pelican Women's Championship mótið sem kláraðist á sunnudaginn. Hún hefur nú verið samfleytt í 62 vikur í efsta sætinu og samtals í 74 vikur. Aðeins fjórar konur hafa verið lengur en hún í efsta sætinu en það eru þær Lydia Ko (104), Inbee Park (106), Yani Tseng (109) og Lorena Ochoa (158).

Sei Young Kim, sem situr í öðru sætinu, minnkaði þó bilið á milli þeirra tveggja þar sem hún bar sigur út býtum á mótinu. Munurinn á þeim fyrir helgi var tæplega 1,2 stig en er nú aðeins rúmlega 0,4 stig. Kim hefur unnið tvö mót síðan að mótaröðin fór af stað að nýju eftir hlé sem var gert út af Covid-19.


Jin Young Ko.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir náði sínum besta árangri á Evrópumótaröð kvenna um helgina þegar að hún endaði í 39. sæti á Saudi Ladies Team International mótinu. Hún fer fyrir vikið upp um 88 sæti og er hún nú í 861. sæti.

Valdís Þóra Jónsdóttir er efst íslensku kvennmannanna en hún situr í 610. sæti. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir situr svo í 910. sæti.

Heimslista kvenna má nálgast hérna.