Golfhöllin
Golfhöllin

Fréttir

Hulda Clara og Kristján Þór unnu Hvaleyrarbikarinn
Sunnudagur 27. ágúst 2023 kl. 21:33

Hulda Clara og Kristján Þór unnu Hvaleyrarbikarinn

Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar sigruðu í Hvaleyrarbikarnum í golfi á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði en leiknar voru 54 holur. Bæði lögðu þau grunninn að sigrinum með frábærri spilamennsku á fyrsta keppnisdegi á föstudaginn. 

Hulda lauk leik á höggi yfir pari samtals og sigraði með þriggja högga mun. Lék Hulda á 214 höggum en Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR var á 217 höggum. Anna Sólveig Snorradóttir úr Keili fékk bronsverðlaunin á 227 höggum.  

Hulda Clara lék hringina þrjá á 66, 75 og 73 höggum en aðstæður voru erfiðastar á öðrum hringnum í gær þegar rigndi hressilega. Hina tvo dagana léku kylfingar í afar góðu veðri. Hulda hafði tveggja högga forskot á Perlu fyrir lokahringinn. Eftir fimm holur á lokahringnum var forskotið aðeins eitt högg en Hulda fékk fugla á 7. og 8. holu og var býsna örugg eftir það. 

Örninn 2025
Örninn 2025

Kristján Þór lék hringina þrjá á 64, 69 og 73 höggum og sigraði örugglega þegar uppi var staðið á samtals sjö undir pari en um tíma var þó mikil spenna á lokahringnum. Ingi Þór Ólafsson einnig úr GM og Daníel Ísak Steinarsson úr Keili komu næstir á 211 höggum eða fimm höggum á eftir Kristjáni. 

Kristján var með þriggja högga forskot á Daníel fyrir lokadaginn. Þegar lokahringurinn var hálfnaður hafði Daníel náð forystunni. Vonir Daníels um sigur voru úr sögunni eftir 16. holuna þar sem hann sló upphafshöggið út í Atlantshafið og lék holuna á níu höggum. Daníel lék lokahringinn á 75 og Ingi Þór á 74 en enginn efstu manna lék undir pari á lokadeginum. 

Mótið er næstsíðasta stigamótið á mótaröð GSÍ og Hulda Clara er nú efst á stigalista kvenna og fór upp fyrir Íslandsmeistararann Ragnhildi Kristinsdóttur úr Golfklúbbi Reykjavíkur sem gat ekki verið með vegna verkefna erlendis.