Fréttir

Hvaleyrarbikarinn: Guðrún og Hákon fögnuðu sigri
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Hákon Örn Magnússon.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 19. júlí 2020 kl. 22:59

Hvaleyrarbikarinn: Guðrún og Hákon fögnuðu sigri

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Hákon Örn Magnússon fögnuðu í dag sigri á Hvaleyrarbikarnum sem fór fram á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði á stigamótaröð GSÍ.

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá sigraði í kvennaflokki með sannfærandi hætti. Guðrún Brá lék holurnar 36 á samtals þremur höggum undir pari. Hún lék fyrri hringinn á 69 höggum í morgun og hinn síðari nú seinni partinn á 70 höggum.

Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar kom næst en hún var fimm höggum á eftir Guðrúnu. Hún lék hringina á 77 og 67 höggum og bætti sig því um tíu högg á milli hringja. Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR varð þriðja á fjórum yfir pari og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fjórða á 7 höggum yfir pari.

Hákon Örn, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, sigraði í karlaflokki eftir nokkrar sviptingar. Hákon lék holurnar 36 á samtals fjórum höggum undir pari. Er þetta í fyrsta skipti sem heimamenn í Keili missa bikarinn í karlaflokki út úr bænum en mótið hóf göngu sína sem stigamót á mótaröð GSÍ árið 2016.

Gamla kempan Guðmundur Rúnar Hallgrímsson úr Golfklúbbi Suðurnesja var höggi á eftir Hákoni. Guðmundur Rúnar fór illa að ráði sínu en hann var með forystu á fimm undir pari eftir að hafa leikið afar vel en hann fékk skolla á 16. og 18. holu og það náði Hákon að nýta sér. 

Heimamaðurinn Axel Bóasson var á tveimur undir pari eins og Andri Már Óskarsson úr Golfklúbbi Selfoss. Daníel Ísak Steinarsson úr Keili lék samtals á höggi undir pari og voru því fimm kylfingar í karlaflokki undir pari þegar uppi var staðið.

Lokastaða í kvennaflokki:

1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, -3
2. Hulda Clara Gestsdóttir, +2
3. Ragnhildur Kristinsdóttir, +4
4. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, +7
5. Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Heiðrún Anna Hlynsdóttir, +9

Lokastaða í karlaflokki:

1. Hákon Örn Magnússon, -4
2. Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, -3
3. Andri Már Óskarsson, Axel Bóasson, -2
5. Daníel Ísak Steinarsson, -1


Guðmundur Rúnar Hallgrímsson varð annar í karlaflokki.


Hulda Clara Gestsdóttir varð önnur í kvennaflokki.