Fréttir

Hverjir eru taldir líklegastir til sigurs á Masters mótinu?
Bryson DeChambeau sigraði á Opna bandaríska mótinu í síðasta mánuði.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 21. október 2020 kl. 18:09

Hverjir eru taldir líklegastir til sigurs á Masters mótinu?

Nú eru einungis þrjár vikur í síðasta risamót ársins í karlagolfinu, Masters mótið, sem fer að þessu sinni fram dagana 12.-15. nóvember.

Vegna Covid-19 var mótið fært til nóvember í ár en venjulega fer mótið fram í apríl og markar upphaf golfsumarsins hjá mörgum kylfingum.

Hver er talinn líklegastur til að vinna Masters mótið?

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods sigraði á mótinu í fyrra eftir æsispennandi lokadag. Þetta var fyrsti sigur Woods á risamóti í 11 ár og sá 15. á hans glæsilega ferli. Hann er þó ekki líklegastur til sigurs í ár en þar er nýjasti risameistarinn, Bryson DeChambeau.

DeChambeau er efstur hjá flestum af stærstu veðmálabönkum heims og þegar stuðlar þeirra eru teknir saman í einn pott er hann að sama skapi á toppnum. DeChambeau sigraði eftirminnilega á Opna bandaríska mótinu í september þar sem hann var eini kylfingur mótsins sem lék samtals á undir pari í mótinu.

Á eftir DeChambeau er Norður-Írinn Rory McIlroy sem á enn eftir að sigra á Masters. McIlroy hefur á sínum farsæla ferli unnið fjögur risamót en á enn eftir að klæðast græna jakkanum og því verður áhugavert að sjá hvernig honum vegnar í nóvember.

Eftirfarandi kylfingar eru taldir líklegastir til sigurs samkvæmt veðbönkum:

1. Bryson DeChambeau
2. Rory McIlroy
3. Jon Rahm
4. Dustin Johnson
5. Justin Thomas
6. Xander Schauffele
7. Brooks Koepka
8. Tiger Woods
9. Collin Morikawa
10. Patrick Reed


Tiger Woods hefur titil að verja.