Fréttir

Íslandsmót eldri kylfinga: Þórdís Íslandsmeistari áttunda árið í röð
Áttfaldur Íslandsmeistari, Þórdís Geirsdóttir, með pútterinn á lokahringnum. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 17. júlí 2022 kl. 06:47

Íslandsmót eldri kylfinga: Þórdís Íslandsmeistari áttunda árið í röð

Jón Karlsson sigraði í karlaflokki

Þórdís Geirsdóttir úr GK sigraði með miklum yfirburðum í flokki 50 ára og eldri á Íslandsmóti eldri kylfinga sem lauk á Jaðarsvelli Golfklúbbs Akureyrar í gær. Þórdís lék hringina þrjá á 228 höggum (76-75-77) eða á 15 höggum yfir pari vallarins. Ragnheiður Sigurðardóttir varð önnur á 41 höggi yfir pari og María Málfríður Guðnadóttir hafnaði í þriðja sæti, einu höggi á eftir Ragnheiði. Þær Ragnheiður og María koma báðar úr GKG.

Þórdís varð með sigrinum Íslandsmeistari, í flokki 50 ára og eldri, áttunda árið í röð. 

Í karlaflokki 50 ára og eldri var það Jón Karlsson úr GR sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Jón, sem var með eins höggs forskot á Helga Anton Eiríksson úr GE fyrir lokahringinn, lék á 72 höggum eða á 1 höggi yfir pari vallarins í gær og sigraði með fjögurra högga mun. Hann lék hringina þrjá á 220 höggum (72-76-72) eða á 7 höggum yfir pari vallarins. Ólafur Hreinn Jóhannesson úr GSE læddist fram úr Helga Antoni með góðum lokahring en þeir luku báðir leik samtals á 11 höggum yfir pari á hringjunum þremur.

Í kvennaflokki 65 ára og eldri var það Elísabet Böðvarsdóttir úr GKG sem varð Íslandsmeistari. Hún lék hringina þrjá á 257 höggum (89-84-84) eða á 44 höggum yfir pari vallarins. Önnur varð Ágústa Dúa Jónsdóttir úr NK á 57 höggum yfir pari og Þyrí Valdimarsdóttir úr NK hafnaði í þriðja sæti á 67 höggum yfir pari vallarins.

Sigurður Aðalsteinsson úr GSE varð Íslandsmeistari í karlaflokki 65 ára og eldri en þeir Hörður Sigurðsson úr GR deildu forystunni fyrir lokahringinn. Sigurður lék lokahringinn á 76 höggum eða á 5 höggum yfir pari, einu höggi betur en Hörður. Sigurður lék hringina þrjá á 237 höggum (80-81-76) eða á 24 höggum yfir pari. Hörður varð annar á 25 höggum yfir pari og Sæmundur Pálsson úr GR hafnaði í þriðja sæti á 26 höggum yfir pari vallarins.

Staðan á mótinu