Fréttir

Jóhanna Lea og Sigurður Arnar Íslandsmeistarar í flokki 17-18 ára
Jón, Sigurður Arnar og Lárus Ingi. Mynd: [email protected].
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 19. ágúst 2019 kl. 09:50

Jóhanna Lea og Sigurður Arnar Íslandsmeistarar í flokki 17-18 ára

Íslandsmót unglinga í höggleik lauk í gær en leikið var á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar að þessu sinni. Leikið var í fjórum stelpuflokkum og fjórum strákaflokkum.

Mikil spenna var á lokadegi í flestum flokkum og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokaholunum í flokki 17-18 ára, bæði í stelpu- og strákaflokki, en svo fór að lokum að Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, GR, fögnuðu sigri.

Fyrir lokadaginn var Jón Gunnarsson, GKG, með eins höggs forystu á Sigurðu Arnar Garðarsson, GKG. Tveimur höggum þar á eftir var Lárus Ingi Antonsson, GA. Fyrir lokaholuna var staðan orðin þannig að Sigurður var með eins höggs forystu á Jón og þriggja högga forystu á Lárus. Bæði Sigurður og Jón fengu skolla á lokaholunni á meðan Lárus fékk fugl. Sigurður endaði því efstur á höggi undir pari og Jón og Lárus urðu jafnir í öðru sæti á pari vallar.

Úrslit í flokki 17-18 ára kk:

1 Sigurður Arnar Garðarsson GKG -1 68 74 70
T2 Lárus Ingi Antonsson GA Par 72 72 69
T2 Jón Gunnarsson GKG Par 70 71 72
4 Tómas Eiríksson Hjaltested GR +6 82 69 68
5 Aron Emil Gunnarsson GOS +7 72 77 71


Andrea Ýr, Jóhanna Lea og Hulda Clara. Mynd: [email protected].

Hjá stelpunum var svipuð spenna og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokaholunum. Jóhanna var komin með sex högga forystu á Huldu Clöru Gestsdóttur, GKG, þegar sjö holur voru eftir á lokahringnum. Þá fékk Hulda fimm fugla í röð og var forysta Jóhönnu því aðeins eitt högg. Þær fengu báðar pör á síðustu tveimur holunum og fagnaði því Jóhanna eins höggs sigri. Hulda Clara varð önnur og að lokum varð Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA, í þriðja.

Úrslit í flokki 17-18 ára kvk:

1 Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir GR +12 78 74 73
2 Hulda Clara Gestsdóttir GKG +13 79 76 71
3 Andrea Ýr Ásmundsdóttir GA +21 81 77 76
4 Árný Eik Dagsdóttir GKG +25 76 86 77
5 María Björk Pálsdóttir GKG +32 81 83 81