Fréttir

Justin Thomas sigraði eftir umspil á PGA meistaramótinu
Justin Thomas með glæsilegan verðlaunagripinn. Ljósmynd: Reuters
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 23. maí 2022 kl. 11:04

Justin Thomas sigraði eftir umspil á PGA meistaramótinu

Mito Pereira tapaði forystunni á 18. holu

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas, sigraði á PGA meistaramótinu, sem lauk í gær. Þannig vann hann sinn annan titil á risamóti en hann sigraði einnig á PGA meistaramótinu á Quail Hollow í Norður-Karólínu árið 2017.

Thomas lék hringina fjóra á 275 höggum (67-67-74-67) eða á 5 höggum undir pari Southern Hills vallarins í Tulsa, Oklahoma. Landi hans, Will Zalatoris, lék einnig á 275 höggum (66-65-73-71) eða á 5 höggum undir pari. Því var gripið til þriggja holu umspils til að skera úr um sigurvegara.

Þeir Thomas og Zalatoris hófu umspilið á Par 5, 13. braut. Zalatoris var inn á í tveimur höggum og átti eftir tæplega 8 metra pútt fyrir erni en Thomas var inn á í þremur höggum og átti tæplega tveggja metra pútt eftir fyrir fugli. Zalatoris missti púttið fyrir erninum og fékk fugl en Thomas setti púttið í fyrir fugli. Þá héldu þeir á Par 4, 17. braut. Thomas ´drævaði´ tæpa 300 metra inn á flöt og átti eftir rúma 10 metra fyrir erni en Zalatoris átti eftir rúmlega 20 metra vipp inn á flötina.

Vipp Zalatoris hafnaði rúmum tveimur metrum frá og pútt landa hans innan við einum metra frá holu. Zalatoris missti púttið en Thomas setti sitt í fyrir fugli og tók forystuna. Á Par 4, 18. braut voru þeir báðir inn á í tveimur höggum, Zalatoris átti eftir um 12 metra fyrir fugli en Thomas tæplega 8 metra. Hvorugur setti í. Zalatoris átti eftir tæpan metra í holu fyrir pari en Thomas um þrjátíu sentimetra. Zalatoris setti sitt pútt í en Thomas gerði engin mistök, setti í og tryggði sér sigurinn.

Sílemaðurinn Mito Pereira, sem var með þriggja högga forskot fyrir lokahringinn var í góðri stöðu á 18. teig, með eins höggs forskot. Hann fór illa að ráði sínu á holunni. Hann átti agalegt upphafshögg sem endaði í hliðarvatnstorfæru. Pereira fann flötina ekki fyrr en í 5. höggi og fékk tvöfaldan skolla á holuna. Hann hafnaði í 3.-4. sæti.

Justin Thomas, sem elti efstu menn nær allan lokahringinn og var átta höggum á eftir Pereira á miðjum fyrri níu holunum, sagði á blaðamannafundi eftir mót að hann hafi ekki horft á skortöfluna og einbeitt sér að því að spila golf. Hann sagði mikla þolinmæði hafa skilað sér á hringum og að hann hafi alltaf haft trú á sjálfum sér. Hann sagði að á risamóti eins og á PGA meistaramótinu geti allt gerst. Með sigrinum færðist Justin Thomas upp í 4. sætið á stigalistanum til Fed-Ex bikarsins og upp í 5. sætið á heimslistanum. Bandaríkjamaðurinn, Scottie Scheffler er enn á toppi beggja lista, þrátt fyrir að hafa ekki komist í gegnum niðurskurðinn á mótinu.