Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Kínversk stjórnvöld í átak gegn ólöglegum golfvöllum
Miðvikudagur 5. maí 2010 kl. 20:00

Kínversk stjórnvöld í átak gegn ólöglegum golfvöllum

Þrátt fyrir að Kína sé eitt af lykillöndunum í sókn golfíþróttarinnar á heimsvísu og uppgangurinn þar hafi verið með ólíkindum undanfarin misseri er framtíðin í óvissu þar sem bygging golfvalla í Kína hefur í raun verið bönnuð með lögum frá árinu 2004.

Ástæða bannsins eru bæði af hagkvæmniástæðum og af hugmyndafræðilegum toga. Í fyrsta lagi fer gríðarlegt landflæmi undir vellina og mikið magn vatns er notað til vökvunar, en hvort tveggja er af skornum skammti í þessu fjölmennasta ríki heims. Í annan stað þykir golfíþróttin vera full „borgaraleg“ að mati stjórnvalda í Beijing.

Örninn 2025
Örninn 2025

Þrátt fyrir bannið hefur aukin almenn velmegun í Kína orðið til þess að vinsældir golfs hafa aukist stórlega og vellir hafa skotist upp út um allt land í trássi við lögin. Ráðuneyti lands og auðlinda þar í landi hefur skorið upp herör gegn þessum völlum og rutt fjöldan allan af völlum síðustu misseri.

Li Jianqin, yfirmaður eftirlitsstofnunar ráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi í Beijing í gær að uppræting ólöglegra valla væri nú forgangsmál hjá ráðuneytinu.

Í frétt China Daily í dag eru taldir upp fjölmargir vellir sem hafa verið upprættir frá árinu 2008 þar sem brautum og tengdum byggingum í nágrenni þeirra hefur beinlínis verið rutt í burtu og land fært í upprunalegt horf.

Erfitt er að sjá hvernig stjórnvöld eigi eftir að geta haldið banninu til streitu næstu ár því íþróttin er, eins og fyrr segir, í mikilli sókn.

Talið er að um 20 milljónir golfara séu um þá hlutfallslega fáu velli sem til eru og þeim á sennilega bara eftir að fjölga. Nú þegar eru langir biðlistar í hverjum klúbbi og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.

Ómögulegt er þó að spá um hvernig þróunin verður þar sem stjórnvöld hafa hingað til getað farið sínu fram óháð almenningsáliti.

H: China Daily

Mynd/golfsupport.nl - Frá Mission Hills í Kína. stærsta golfsvæði heims.