Fréttir

Koepka: Hann hefur ekki unnið risamót á þeim tíma
Brooks Koepka.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 16. október 2019 kl. 20:00

Koepka: Hann hefur ekki unnið risamót á þeim tíma

Brooks Koepka er mættur til Suður-Kóreu þar sem CJ Cup mótið fer af stað á fimmtudaginn á PGA mótaröðinni.

Í aðdraganda mótsins var Koepka, sem situr í efsta sæti heimslistans, spurður hvort það væri rígur milli hans og Rory McIlroy sem nýlega var valinn kylfingur ársins á PGA mótaröðinni.

„Ég horfi ekki á neinn fyrir aftan mig, ég er númer eitt í heiminum,“ sagði Koepka að sögn BBC. „Ef áhorfendur kalla þetta ríg þá er það þeirra og það gæti verið gaman.

Ég er búinn að vera hérna í hvað, fimm ár? Rory hefur ekki unnið risamót frá því að ég byrjaði að spila á PGA mótaröðinni.“

Koepka talaði þó vel um McIlroy enda einn besti kylfingur í heimi. Báðir hafa þeir sigrað á fjórum risamótum en Koepka fagnaði síðast risatitli í maí á PGA meistaramótinu.

„Ég elska Rory, hann er frábær leikmaður og gaman að fylgjast með en það er einfaldlega erfitt að trúa því að það sé einhver rígur í golfi. Ég bara sé það ekki.“

Meðal keppenda á CJ Cup eru meðal annars þeir Tommy Fleetwood, Jordan Spieth, Justin Thomas, áðurnefndur Brooks Koepka og Phil Mickelson. Mótið er það eina á tímabilinu sem fer fram í Suður-Kóreu en Koepka hefur titil að verja.