Fréttir

Leikskipulag er lykillinn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 26. september 2023 kl. 09:47

Leikskipulag er lykillinn

Sigmundur Einar Másson spilaði fimm ár í háskólagolfinu. Varð Íslandsmeistari árið 2006. Vinnur mikið með tölfræði. Staðsetningargolf er vanmetið.

„Bara með réttri ákvarðanatöku er hægt að bæta golfið sitt mjög mikið,“ segir Sigmundur Einar Másson sem hefur víða komið við á sínum golferli. Hann byrjaði frekar seint í golfi, þurfti að fara í gegnum sveiflubreytingar áður en hann landaði Íslandsmeistaratitli í golfi árið 2006. Svo fór hann í gegnum háskólagolfið í Bandaríkjunum. Hann þjálfaði þar um tíma, reyndi við atvinnumanninn en undanfarin ár hefur kraftur hans í golfinu farið í að aðstoða unga kylfinga við að komast út í háskólagolfið og hjálpa þeim með sinn leik með því að notast við tölfræði.


Sigmundur byrjaði í golfi eftir skólakynningu. „Ég er úr Kópavogi og þegar ég var í sjöunda bekk í grunnskóla bauð GKG öllum sjöundabekkingum í Kópavogi á golfnámskeið á vordögum. Ég hafði fiktað með vini mínum með kylfum frá pabba hans en ekkert farið lengra en það fyrir þessa skólakynningu, var bara í fótbolta í Breiðabliki. Ég byrjaði á sumarnámskeiðum fyrsta sumarið en strax árið eftir fór ég að æfa og vera oftar á golfvellinum. Þarna dútlaði ég bara eitthvað samhliða fótboltanum en lækkaði nokkuð fljótt í forgjöf. Ég hætti í fótbolta eftir fjórða flokkinn og fór þá á fullt í golfið, var fljótlega kominn niður í þrjá í forgjöf. Ég tók þátt í Landsmótinu í síðasta skipti þega það voru fleiri flokkar en bara meistaraflokkur árið 1999, var þá í 1. flokki sem spilaði á Urriðavelli en meistaraflokkurinn lék á Hvaleyrinni. Árið eftir verða síðan ákveðin straumhvörf hjá mér, ég varð Íslandsmeistari átján ára og yngri og trúin jókst. Ég spilaði á Íslandsmóti fullorðinna sem þá var orðinn einn flokkur og komst í fyrsta skipti í landslið þegar ég var valinn í unglingalandsliðið. Reyndar kom ég inn fyrir Eyjamanninn Karl Haraldsson. hann fótbrotnaði við að undirbúa þjóðhátíðina og ég var kallaður inn á föstudegi, við fórum út á mánudegi, eins manns dauði er annars brauð.“

Háskólagolf

Sigmundi gekk vel næstu árin og eftir gott 2002 ár spurði þjálfarinn hans, Kristinn Gústaf Bjarnason hvort hann hefði áhuga á að komast til Bandaríkjanna í háskólagolfið. Kristinn hafði sjálfur verið í háskólagolfinu og hafði sambönd. Á þessum tíma voru bréfpóstar algengari, Sigmundur þurfti að taka upp video og senda spólu út með umsókninni og fékk inngöngu, hóf háskólaferilinn haustið 2003. „Skólinn sem ég fór í heitir McNeese State og er í Louisiana fylki. Þetta er 150 þúsund manna bær en það var einhver misskilningur í byrjun, það var ekki búið að redda gistingu fyrir mig á heimavistinni svo ég þurfti að gista fyrstu vikurnar á dýnu hjá liðsfélögum. Ég mætti einhverju áður en skólinn byrjaði, ég var ekki góður í ensku á þessum tíma og viðurkenni fúslega að það munaði mjög litlu að ég myndi kasta inn hvíta handklæðinu. Mér leist ekkert á þetta en þjálfarinn minn fattaði hvað var að trufla mig, hann bauð mér heim til sín kvöldmat og þar gat ég æft mig á enskunni við börnin hans, ég var á pari við tveggja ára barnið hans. Hægt og bítandi kom þetta svo og mér fór að líða betur og spilamennskan þar með líka. Ég fékk samt ekki að keppa með liðinu fyrr en á öðru ári, þjálfarinn taldi mig ekki tilbúinn og ákvað að nýta sér reglu sem sagði til um að ég gæti verið í skólanum í fimm ár á skólastyrk en mætti ekki byrja að keppa fyrr en á ári tvö. Það gekk fínt þetta fyrsta ár, ég bætti mig í golfi, átti fínt sumar á Íslandi og mætti svo í annað árið úti og byrjaði þá að keppa, gekk ágætlega en liðið okkar var ekki með þeim bestu. Ég vissi á þessum tíma að sveiflan mín væri ekki nógu góð og ég þyrfti að breyta henni, ég var með of miklar mjaðmahreyfingar, fæturnir voru að sjá um kraftinn. Hins vegar er mjög erfitt að vera í sveiflubreytingum á miðju tímabili í háskólagolfinu, það er verið að keppa í hverri viku. Þegar ég kom heim eftir annað árið úti, voru breytingar í gangi í þjálfarateyminu í GKG, Birgir Leifur var genginn í klúbbinn á þessum tíma og æfði hjá golfþjálfaranum Andrési Jóni Davíðssyni. Ég hafði samband og Andrés var til í að vinna með mig en við þurftum að fara öðruvísi leið má segja, hann sá að ég þyrfti að breyta sveiflunni en fyrst vildi hann taka mig í gegn varðandi vipp og pútt. Ég skyldi það ekki á þeim tíma, rökræddi þetta við Andrés sem sagði mér einfaldlega að hlýða sér. Þetta var sniðugt hjá Andrési því hann vissi að um leið og ég færi að breyta sveiflunni, myndi ég þurfa taka skref aftur á bak og myndi ekki hitta flatirnar eins vel, þá væri gott að geta reddað sér á vippum og púttum. Þetta virkaði og ég náði að hanga með þeim bestu og svo fóru sveiflubreytingarnar að skila sér á þriðja árinu í háskólagolfinu. Þegar ég kom til Íslands vorið 2006 var ég búinn að bæta mig mjög mikið og átti frábært sumar,“ segir Sigmundur.

Íslandsmeistari 2006

Sigmundur vann sterkt áhugamannamót í Austurríki í júní 2006 og kom fullur sjálfstrausts í Íslandsmótið sem var haldið á Urriðavelli. „Þetta var fyrsta alvöruframmistaðan mín erlendis og ég fann hvernig sjálfstraustið jókst.
Það tók tíma að treysta þessu leikskipulagi sem ég og Andrés vorum að búa til. Ég var fastagestur á Oddinum mörgum mánuðum fyrir mótið.  Þarna var ég farinn að spá miklu meira í leikskipulagi og ég hef oft sagt að besta leikskipulagið vinnur mót á Urriðavelli. Ég sló ekki bestu golfhöggin í Íslandsmótinu en ég sló boltanum á réttu staðina og gerði fæstu mistökin.Ég grínast oft með það, ég á minnsta möguleika þegar aðstæður eru frábærar, þá geta hinir hent í frábæra hringi en ég er alltaf nokkuð stöðugur og lítið um flugeldasýningar. Fæ mína tvo til fjóra fugla, ef ég fæ tvo til fjóra skolla á móti er ég á parinu og ef ég sleppi skollunum er ég undir pari. Eftir sveiflubreytingarnar gekk mér mjög vel að spila í vindi og aðstæður þetta ár á Urriðavelli voru erfiðar því það var mikið rok, talsvert frábrugðnar aðstæðunum í ágúst þegar það var rjómablíða allan tímann. Ég náði að spila stöðugt alla dagana á

meðan hinir voru að lenda í vandræðum vegna vindsins. Mér gekk áfram vel um haustið í háskólagolfinu og vann tvö mót þetta ár. Kannski ofmetnaðist ég eitthvað, var ekki nógu góður árið 2007 en þá útskrifaðist ég en gat samt haldið áfram að spila úti vegna reglunnar sem ég minntist á. Ég var ekki eins metnaðarfullur á þessum tíma, hélt líklega að ég væri betri en ég var og staðnaði í stað þess að bæta við ákefðina og reyna taka næsta skref. Við Andrés ræddum þetta haustið 2007 og ég vaknaði af hinum væra blundi sem ég var á og var á réttri leið þegar ég ætlaði að reyna við atvinnumaninn árið 2008 en þá skall fjármálahrunið á. Ég var búinn að safna styrkjum en missti þá alla. Ég var í Bandaríkjunum á þessum tíma, var að undirbúa mig fyrir atvinnumennskuna og stóð þarna á ákveðnum tímamótum, þurfti einfaldlega að spyrja mig hvað ég ætlaði mér að gera. Þjálfarinn minn í McNeese kannaði þá fyrir mig möguleikann á að geta orðið aðstoðarþjálfari í háskóla og taka meistaranám í leiðinni og ég fékk símhringingu frá þjálfaranum í Troy University. Strax í janúar eða nokkrum mánuðum eftir símtalið pakkaði ég öllu saman í Louisiana, setti það í bílinn og keyrði til Troy í Alabama.“

Háskólagolf, ekki golfháskóli

Sigmundur tók fljótlega við tækniþjálfuninni í skólanum, stundaði meistaranámið en sá fljótlega að þetta ætti ekki við sig og flutti því til Íslands haustið 2009. Hann byrjaði að þjálfa golf og settist á skólabekk, lærði að gerast kennari en alltaf blundaði draumurinn um atvinnumennsku í honum. Hann fór út til Svíþjóðar vorið 2011 og reyndi aðeins fyrir sér í atvinnumennskunni en sá fljótt að tíma hans og fjármunum væri betur varið í annað og gaf drauminn upp á bátinn. Hann keppti næstu árin hér heima en stofnaði svo fjölskyldu og einbeitti sér að öðru. Hann náði að svala golfáhuganum á annan máta. „Ég tók þátt í Íslandsmótinu 2014 en hætti keppnisgolfi eftir það má segja. Ég var í fullri vinnu, var búinn að stofna til fjölskyldu og sá að ég hafði ekki þann tíma sem ég þyrfti til að geta sinnt golfinu sem skyldi. Á þessum tíma var ég farinn að spá mjög mikið í pælingar um tölfræði í golfinu, las mikið af greinum og skoðaði hvað bestu kylfingar í heimi voru að gera.  Sömuleiðis hafði ég frá árinu 2005 verið að aðstoða unga kylfinga við að komast í háskólagolfið. Ég veit ekki hve marga ég hef aðstoðað, ég hætti því um tíma en er byrjaður aftur núna. Þetta gefur mér mikið, ég veit hve vel þetta reyndist mér, ég öðlaðist mikinn þroska á þessum árum og veit hve gott krakkar hafa af þessu, að þurfa að standa á eigin fótum fjarri fjölskyldu og vinum. Að æfa golf við bestu aðstæður gerir síðan ekkert annað en bæta þau sem kylfinga og þar með að hjálpa íslensku golfi. Ég minni þau samt alltaf á að þau eru að fara í háskólagolf, ekki í golfháskóla. Þau eru að fá tækifæri á frábærri menntun sem kostar mjög mikinn pening og þess vegna er þetta ígildi atvinnumennsku. Þess vegna verða þau að einbeita sér jafn mikið af náminu eins og golfinu,“ bætti hann við.

Nokkur högg niður í forgjöf með hugsun

Undanfarin ár hefur Sigmundur sökkt sér í öðruvísi pælingar í golfi. „Tölfræðin í kringum golfið á í raun hug minn allan í dag. Ég er mikið að aðstoða kylfinga við að skilja leikinn sinn betur. Ég er bæði að vinna með afrekskylfingum en ég tel mig geta hjálpað öllum kylfingum með sinn leik. Þegar kemur að afrekskylfingunum þá vinn ég með aðferðafræði sem heitir Strokes Gained. Það er samanburður við kylfingana á PGA mótaröðinni, kylfingurinn skráir hvert einasta högg á hringnum og þeim er slegið inn í reiknivél og út kemur samanburður. Kylfingurinn getur þá séð hvernig hann stendur gagnvart þeim bestu, bæði hvar hann er góður en ekki síst hvað hann þurfti að bæta. Þetta er aðferðarfræði sem snýst um erfiðleikastuðul golfhögga. 

Fyrir hinn almenna kylfing, er hægt að ná mjög mikilli bætingu bara með því að nota betur það sem er á milli eyrnanna. Góður golffrasi segir að golf sé leikið á tuttugu sentimetrum á milli eyrnanna á þér, það er mjög mikið til í því. Bara með því að hafa nokkur atriði í huga þegar kemur að ákvörðunartöku í golfi, er hægt að ná fram þvílíkri bætingu. Ég fullyrði að geta tekið kylfing sem er með tíu í forgjöf, auðveldlega niður í sex til átta bara með því að hafa áhrif á ákvörðunartökuna. Tökum sem dæmi, kylfingur á PGA er ánægður ef hann lendir boltanum tíu metra frá holu á par 3 holu sem er 150 metrar. Allt fyrir innan tíu metra er betra heldur en meðaltalið á PGA túrnum. Af lengri en tíu metrum eru meiri líkur á þrípútti en einpútti svo meðaltal á 150 metra par 3 holu er þrjú högg, par. Hversu margir og ég þar með talinn, hafa ekki verið hundsvekktir með að fá bara par á slíkri holu? Væntingar kylfings eru of miklar, við teljum okkur alltaf vera fara slá betra golfhögg en raun bar vitni. Mest snýst þetta samt um að spila upp á sína styrkleika, ef maður er góður að hitta flöt af 100 metrum, af hverju vill maður þá vera rembast við að vera sem lengstur og slá inn á af kannski 50 metrum? Staðsetningargolf er mjög vanmetið, bara með því að taka kylfu niður eru miklu meiri líkur á að spila sig ekki í vandræði því ef högg með driver t.d. klikkar, eru miklar líkur á að vera utan brautar og því í slæmri stöðu, af hverju ekki þá að sætta sig við styttra högg af teig? Það er líka allt of algengt að kylfingar skoði pinnastaðsetningu á flötum, í stað þess að ætla „bara“ að hitta inn á flötina. Góð regla er líka að hugsa um „sitt par“, kylfingur sem er með tíu í forgjöf, fær eitt högg í forgjöf á tíu holur. Hans par er því í raun skolli á þessum tíu holunum því hann fær högg í forgjöf á holuna. Bara að hugsa svona um sitt par, að spila bara upp á það, getur lækkað höggafjöldann á hringnum talsvert því kylfingurinn er þá ekki að reyna eitthvað sem hann ræður ekki við. Með því að hugsa golfið svona, detta svo alltaf inn pör á forgjafarholu og þá er það orðið eins og fugl, svo fer að detta fugl sem þá telur eins og örn. Bara með svona hugsunarhætti er hægt að bæta sitt skor í golfi mjög mikið.“

Gaman að aðstoða yngri kylfinga

„Hvað framtíðin ber í skauti sér verður gaman að sjá. Ég hafði mjög gaman af því að taka þátt í Íslandsmótinu í ár, á sama velli og þegar ég vann árið 2006. Það var gaman að spila með þessum ungu efnilegu kylfingum, ég spilaði t.d. með Markúsi Marels, hann var ekki fæddur þegar ég varð Íslandsmeistari árið 2006. Ég setti mér það markmið að gera mig ekki að fífli í mótinu og enda í topp 20, ég náði því og var því mjög sáttur. Ég efast um að ég muni hella mér aftur af fullum krafti út í keppnisgolfið en þó veit maður aldrei. Ég hef mjög gaman af því að aðstoða ungmenni við að komast út og hjálpa kylfingum með því að vinna með tölfræðina, ég mun pottþétt halda því áfram,“ sagði Sigmundur að lokum.

Sigmundur í Íslandsmótinu 2014 sem spilað var hjá GKG

Háskólalið McNeese