Logi Bergmann er kylfingur vikunnar
Logi Bergmann Eiðsson, sjónvarpsmaður, er kylfingur vikunnar að þessu sinni. Flestir ættu að kannast við Loga enda hefur hann verið reglulegur gestur á sjónvarpsskjá landsmanna um árabil.
Hann er 43 ára, á sex börn og þrjá ketti. Hann er sem stendur að klára nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Við fengum Loga til að svara nokkrum spurningum.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
„Ég byrjaði að fikta við þetta strax um 1991. Þá fjallaði ég um golf sem íþróttafréttamaður og fór aðeins að slá bolta. Svo lá þetta í dvala í nokkur ár. Það má í raun segja að ég hafi ekki byrjað fyrir alvöru fyrr en um 2000 og svo hefur orðið miklu meira úr þessu eftir að ég byrjaði að spila með golfhóp sem kallast Stullarnir. Þar eru 25 kylfingar sem eru gríðarlega skemmtilegir og misgóðir.“
Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
„Ég var í fótbolta, handbolta og körfubolta. Æfði upp yngri flokkana en hætti þegar alvaran tók við.“
Hver eru helstu markmiðin?
„Markmiðið er að bæta sig og ná niður fyrir 10 í forgjöf. Það munaði ekki miklu í sumar.“
Helstu afrek í golfinu?
„Sennilega 76 högg í Grafarholtinu og að hafa náð að lenda í tveimur stærstu glompunum á gamla vellinum í St. Andrews á sama hringnum og fá par á báðar holurnar!“
Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
„Á 8. braut á Jaðarsvelli missti ég örlítið stjórn á skapi mínu. Eftir að hafa sent teighöggið inní skóg og fór driverinn sömu leið. Fann boltann eftir fjórar mínútur en kylfuna eftir 15 mínútur – uppí tré!“
Ferðu í golfferð til útlanda í ár og ef þá hvert?
„Sennilega ekki í ár, þó að ég sé að láta mig dreyma um stutta ferð til Skotlands með nágranna mínum í haust.“
Hvað ætlar þú að gera til að lækka forgjöfina næsta sumar?
„Spila og fara í sveiflugreiningu hjá Steina Hallgríms.“
Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
„Drævin hafa verið vandamál og ég á það til að detta útúr púttunum. Löngu járnin hafa verið styrkleikinn og högg þegar ég er kominn inn undir 100 metra.“
Hver er uppáhalds kylfingurinn (innlendur og erlendur) og af hverju?
„Ég hef alltaf haldið mest uppá Nick Faldo og svo náttúrlega Tiger Woods. Af þeim íslensku er ég sennilega hrifnastur af Björgvini Sigurbergssyni. Svo er gaman að spila með Steina Hallgríms (maður virkar svo grannur við hliðina á honum). Annars eru uppáhaldskylfingarnir sennilega þeir sem ég spila mest með: Einar, Steingrímur, Þórður, Stefán og fleiri fínir drengir.“
Ef þú mættir breyta einni golfreglu hverju myndir þú breyta?
„Högg í víti fyrir að slá í sjálfan sig. Það er nógu mikil niðurlæging að hafa gert það.“
Atvinnumaður í fótbolta eða golfi?
„Golfi. Bjánaleg spurning!“
Fylgist þú mikið með golfi, erlendum mótum eða mótaröðinni hér heima?
„Ég fylgist alltaf með stóru mótunum fjórum og Rydernum. Svo með hinum svona tilfallandi. Hér heima er það eiginlega bara Landsmótið og náttúrlega hið klassíska einvígi á Nesinu á frídegi verslunarmanna.“
Staðreyndir:
Nafn: Logi Bergmann Eiðsson
Klúbbur: Nesklúbburinn og Golfklúbburinn Hamar á Dalvík.
Forgjöf: 10,0
Golfpokinn: Ecco golfpoki. Ping driver og 3 tré. Taylor Made hálfvíti. Ping járn 3-pw. Feel 52 og 60 gráður og Titleist 56 gráður. Ping pútter.
Golfskór: Ecco, að sjálfsögðu.
Golfhanski: Yfirleitt Nike eða Callaway.
Markmið í golfinu: Komast undir tíu án þess að æfa of mikið.
Fyrirmynd: Þórður Már Jóhannesson, sem fór úr 36 í 7 á tveimur og hálfu ári.
Uppáhalds drykkur: Egils kristall.
Besti völlurinn: Jaðarsvöllur að áliðnu sumri. Annars Grafarholtið, Dalvík og svo finnst mér gríðarlega skemmtilegt að finna nýja og skemmtilega velli, til dæmis völlinn á Þingeyri.
Besta skor (hvar): 76 í Grafarholtinu, eftir að hafa fengið 7 á 5. holu.