Fréttir

LPGA: Valdís lék fyrsta hringinn á parinu
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 22. ágúst 2019 kl. 19:57

LPGA: Valdís lék fyrsta hringinn á parinu

Valdís Þóra Jónsdóttir GL hóf í dag leik á úrtökumóti fyrir LPGA mótaröðina. Um er að ræða fyrsta stig úrtökumótanna af þremur.

Valdís lék fyrsta hringinn á pari Dinah Shore vallarins og er þessa stundina jöfn í 23. sæti af þeim 139 kylfingum sem hafa lokið leik á fyrsta keppnisdegi.

Skorkort Valdísar frá fyrsta hringnum má sjá hér fyrir neðan en eins og sést fékk hún þrjá fugla og þrjá skolla á hringnum.

Leikið er á þremur völlum í mótinu og verður skorið niður eftir þrjá hringi. Þeir kylfingar sem halda áfram í gegnum niðurskurðinn leika svo fjórða hringinn og berjast þá um að minnsta kosti 60 laus sæti á næsta stig.

Vellirnir sem keppt er á eru Palmer og Dinah Shore vellirnir hjá Mission Hills golfklúbbnum og Palm Desert völlurinn hjá Shadow Ridge golfklúbbnum en þeir eru allir staðsettir í Kaliforníu. Allir kylfingar mótsins spila einn hring á hverjum velli fyrstu þrjá dagana og þeir sem komast áfram leika lokahringinn á Dinah Shore vellinum.

Annar hringur mótsins fer fram á morgun, föstudag.

Hér er hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.