Fréttir

Markús Marelsson og Fjóla Margrét Viðarsdóttir gerðu vel í Skotlandi
Markús Marelsson og Fjóla Margrét Viðarsdóttir á Monifieth í vikunni. Ljósmynd: GSÍ
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 13. júlí 2022 kl. 16:59

Markús Marelsson og Fjóla Margrét Viðarsdóttir gerðu vel í Skotlandi

Þau Markús Marelsson úr GK og Fjóla Margrét Viðarsdóttir úr GS léku á R&A Junior Open, sem lauk fyrr í dag á Monifieth vellinum í Skotlandi. Þeim golfsamböndum sem heyra undir R&A er boðið að senda leikmenn 16 ára og yngri í mótið en mótið fer alltaf fram á velli nærri keppnisvelli sjálfs Opna mótsins, síðasta risamóts ársins, en Opna mótið hefst einmitt á sjálfum St. Andrews á morgun, fimmtudag.

Á mótinu voru leiknir þrír hringir og var skorið niður eftir fyrstu tvo keppnisdagana. Markús komst í gegnum niðurskurðinn en hann var jafn í 33. sæti eftir fyrstu tvo hringina. Markús gerði sér lítið fyrir og lék lokahringinn á 71 höggi eða á 1 höggi undir pari vallarins og reif sig upp um nokkur sæti. Hann hafnaði að lokum í 25.-30. sæti á mótinu á 12 höggum yfir pari sem verður að teljast prýðilegur árangur. Markús er 15 ára gamall en hann er með 0,2 í forgjöf. Á lokahringnum fékk hann fjóra skolla, þrjá fugla og einn glæsilegan örn.

Fjóla Margrét var aðeins tveimur höggum frá niðurskurðinum en hún lék fyrstu tvo hringina á 23 höggum yfir pari. Fjóla Margrét er með 3,0 í forgjöf og er 15 ára líkt og Markús.

Flottur árangur hjá þessum efnilegu kylfingum.

Það var heimapilturinn, Connor Graham, sem sigraði á 13 höggum undir pari.

Lokastaðan á mótinu

Fjóla Margrét og Markús við setningarathöfn mótsins. Ljósmynd: GSÍ