Fréttir

Með Eaglegolf til Portúgal - flottir golfvellir við Lissabon
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 2. júní 2023 kl. 16:02

Með Eaglegolf til Portúgal - flottir golfvellir við Lissabon

„Ég var með prufu ferð til Cascais í Portúgal síðasta haust, en þangað komu um 25 farþegar og gekk mjög vel. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og ákvað að gera meira svona, þá stofnaði ég Eagle Golfferðir,“ segir Árni Hallgrímsson, kylfingur, golfkennaranemi og ferðaskrifstofueigandi.

Árni er mjög góður kylfingur og lék keppnisgolf þegar hann var yngri. Hann hefur nú söðlað um og býður upp á golfferðir til Portúgal og fleiri staði. Þá hefur hann séð um golfferðir til Íslands og það byrjaði í heimsfaraldri. 

Fréttamenn kylfings.is fóru til Portúgals með Árna í vor og voru leiknir þrír mjög áhugaverðir golfvelli rétt utan við Lissabon, rétt hjá vinsælum smábæ sem heitir Cascais sem Árni kallar Litlu Mónakó en á ströndinni og aðeins inni í landinu eru margir góðir golfvellir en líka norðar eins og í Porto. Flugfélagið Play er með beint flug á báðar þessar borgir. Við lékum og gistum á Quinta Marinha en það er fallegur og fjölbreyttur golfvöllur með hótelið og veitingastað alveg við. Rétt hjá er svo Oitavos Dunes sem er strandvöllur og er knattspyrnugoðið Ronaldo að byggja sér stórhýsi nánst við hliðina á klúbbhúsi vallarins. Þriðji völlurinn sem var leikinn er Penha Longa en þar er glæsileg fimm stjörnu gisting og frábær golfvöllur. Sem sagt, þrír skemmtilegir golfvellir og gisting í nágrenni Cascais en Litla Mónakó er nauðsynlegt að heimsækja. Þar er skemmtilegt bæjarlíf og mikið úrval af veitingastöðum. Svo er auðvitað hægt að skella sér til stórborgarinnar Lissabon ef ferðalangar vilja meira borgarlíf.

Árni segir að meðal fleiri áfangastaða sem www.eaglegolf.is mun bjóða upp á er Costa Navarino í Grikklandi. Hann kíkti þangað nýlega og segir staðinn magnaðan. 

Ánægðir útlendingar

Árni segir útlenska kylfinga mjög ánægða á Íslandi en þeir hafa mest verið að koma frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Sviss en líka frá frá fleiri löndum eins og Suður-Kóreu, Indlandi, Serbíu, Ítalíu og fleiri.

„Þetta virðist vera nýr og spennandi áfangastaður, og fyrirspurnir hrannast inn, og efast ég ekki um að þetta verði bara vinsælla með árunum sem líða. Golfklúbbarnir hérna heima tóku mjög vel í þetta, en að sjálfsögðu mun þetta mögulega vera fyrir traffíkinni í rástímana þar sem hér ríkir mikil golfsýki. Í dag er ég í góðu samstarfi við klúbbana og vonum að þetta verði bara betra og betra, og að samstarfið muni bara blómstra.

Núna í ár á ég von á yfir 150 farþegum til landsins, en það eru einnig ferðir auglýstar hjá erlendum ferðaskrifstofum sem eru í sölu. Það eru einnig komnar fyrirspurnir fyrir árið 2024 og 2025 sem ég er líka að vinna í. 

Ég var smá stressaður með veður faktorinn en það virtist ekki hafa áhrif á neinn útlendinginn. Nokkrir Frakkar spiluðu Korpuna einn daginn í 9 gráðum í biluðum vind og rigningu, ég hélt að þau myndu hætta eftir nokkrar holur en þau kláruðu Sjóinn/Áin á 5klst, þegar ég kom að þeim þá var ég með hangandi haus og spurði hvernig var, þau sögðu bara „FANTASTIC!“ með frönskum hreim og fannst frábært að koma úr hitabylgjunni í Frakklandi og spila hérna.“

Kylfingur.is ræddi við Árna í Portúgal og í innslaginu má sjá myndir frá golfvöllunum og spjall við unga ferðaskrifstofueigandann.

Meira á heimasíðu ferðaskrifstofunnar hér.