Fréttir

Metfjöldi íslenskra kylfinga í úrtökumótum fyrir Evrópumótaröð karla
Dagbjartur Sigurbrandsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 23. ágúst 2019 kl. 07:00

Metfjöldi íslenskra kylfinga í úrtökumótum fyrir Evrópumótaröð karla

Alls taka 11 íslenskir kylfingar þátt í úrtökumótunum fyrir Evrópumótaröð karla á næstu vikum. Aldrei hafa jafnmargir keppendur frá Íslandi skráð sig til leiks í karlaflokki en árið 2016 reyndu átta kylfingar fyrir sér.

Tíu íslenskir kylfingar taka þátt í 1. stigs úrtökumóti þetta árið en einn kylfingur, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, fer beint inn á 2. stigið.


Guðmundur Ágúst kemst beint inn á annað stigið eftir góðan árangur á Nordic Golf mótaröðinni.

Flestir af íslensku kylfingunum ákváðu að keppa á 1. stiginu í Fleesensee í Þýskalandi en alls spila sex Íslendingar þar.

Íslensku kylfingarnir verða hluti af um 800 manns sem freista þess að tryggja sér sæti á Evrópumótaröð karla í ár en alls fá 25 kylfingar í lok 3. stigs úrtökumótanna fullan þátttökurétt á mótaröð þeirra bestu. Þá fá allir þeir sem komast í gegnum niðurskurðinn í lokamótinu takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Samkvæmt heimasíðu mótaraðarinnar komast um 20% kylfinga áfram úr 1. stigs úrtökumótunum yfir á 2. stigið og sömu sögu er að segja um niðurskurð úr 2. stiginu yfir í þriðja og síðasta stigið.

Athygli vekur að hinn 16 ára gamli Dagbjartur Sigurbrandsson ætlar að reyna fyrir sér í ár en þessi efnilegi kylfingur varð stigameistari á mótaröð þeirra bestu hér heima í sumar eftir magnaða byrjun á tímabilinu. Það verður sérstaklega spennandi að fylgjast með framgöngu hans á stóra sviðinu í haust.

1. stigs mótin sem eru framundan hjá íslensku kylfingunum:

10.-13. september, Fleesensee, Þýskaland: Rúnar Arnórsson (áhugakylfingur), Andri Þór Björnsson, Axel Bóasson, Ragnar Már Garðarsson (áhugakylfingur), Aron Snær Júlíusson (áhugakylfingur) og Bjarki Pétursson (áhugakylfingur)

10.-13. september, Arlandastad, Svíþjóð: Aron Bergsson

17.-20. september, Nayland, England: Dagbjartur Sigurbrandsson (áhugakylfingur)

18.-21. september, Ebreichsdorf, Austurríki: Haraldur Franklín Magnús

9.-12. október, Hardelot, Frakkland: Ólafur Björn Loftsson


Rúnar Arnórsson er að keppa í útökumótunum í fyrsta skiptið.