Fréttir

Myndband: McDowell komst inn á Opna mótið með mögnuðu loka pútti
Graeme McDowell.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 10. júní 2019 kl. 13:45

Myndband: McDowell komst inn á Opna mótið með mögnuðu loka pútti

Graeme McDowell tryggði sér í gær farseðilinn á síðasta risamót ársins, Opna meistaramótið, en mótið verður leikið í heimabæ McDowell, Portrush. Hann tryggði sér eitt af þremur sætum sem voru í boði með því að enda á meðal 10 efstu á RBC Canadian Open mótinu sem kláraðist í gær.

McDowell fór ekki auðveldu leiðina að þessu en hann setti niður um 10 metra pútt á lokholunni til að leika á 68 höggum í gær og endað þá jafn í áttunda sæti.

„Það verður magnað að standa á fyrsta teignum. Áhorfendur munu mæta og styðja við bakið á okkur og ég veit að fólk er spennt að fá bestu kylfinga heims á Portrush. Þetta verður mjög sérstakt.“

Þetta verður í fyrsta skipti síðan 1951 sem Opna mótið er spilað í Norður-Írlandi en þá fór mótið einmitt fram á Portrush. McDowell sagði það mikinn létti að hafa tryggt sig inn á mótið.

„Það að mótið sé komið aftur til Norður-Írlands og ég átti smá hlut í því er eitt af bestu augnablikum ferilsins. Það hefði verið mjög súrsæt tilfinning að fá ekki að vera á meðal keppenda.“