Fréttir

Myndband: Rahm fagnaði afmælisdeginum með ótrúlegu höggi
Jon Rahm.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 11. nóvember 2020 kl. 17:28

Myndband: Rahm fagnaði afmælisdeginum með ótrúlegu höggi

Jon Rahm fagnaði 26 ára afmæli sínu í gær og má með sanni segja að hann hafi gert það með stæl en hann gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á æfingahring fyrir Masters mótið.

Eins og flestir eflaust vita þá hefst Masters mótið á fimmtudaginn en mótið átti upphaflega að fara fram í apríl en var frestað vegna Covid-19. Flestir af bestu kylfingum heim eru því mættir á Augusta National völlinn og freista þess að vinna sér einn einn grænan jakka.

Ýmsar venjur fylgja mótinu en þetta er eina risamótið sem leikið er á sama velli á hverju ári. Ein af hefðunum er að reyna fyrir sér að fleita kellingar yfir vatnið á 16. holunni sem er par 3 hola. Rahm gerði það í gær og heppnaðist höggið fullkomlega. Boltinn flaut á vatninu, hoppaði inn á flötina og rúllaði eftir henni endilangri og kom svo til baka beint ofan í holuna.

„Já, frekar góð afmælisgjöf. Get ekki kvartað. Ég sló aðal höggið mitt um hálfan meter frá holunni og fleitti svo kellingar og fór holu í höggi, sem er klikkað, og þetta var annað skipti þess vikuna sem ég fer holu í höggi.“

Einmitt, þetta var önnur holan sem Rahm fór holu í höggi þessa vikuna en á mánudaginn fór hann holu í höggi á fjórðu holunni. Þó sló hann bara venjulegt högg.