Fréttir

Nordic Golf: Guðmundur bætti sig um sex högg
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 16. ágúst 2019 kl. 12:00

Nordic Golf: Guðmundur bætti sig um sex högg

Annar hringur Åhus KGK ProAm mótsins er nú í fullum gangi en fyrstu menn hafa nú lokið leik. Guðmundur Ágúst Kristjánsson er einn þeirra og bætti hann sig um sex högg frá því í gær. Eftir hringina tvo er Guðmundur á átta höggum yfir pari og óvíst hvort hann komist gegnum niðurskurðinn þar sem margir eiga enn eftir að ljúka leik.

Guðmundur hóf leik á fyrstu holu í dag og voru fyrri níu holurnar mjög stöðugar þar sem hann fékk einn skolla, einn fugl og restina pör. Á þeim síðari fékk Guðmundur einn skramba, einn skolla og tvo fugla. Hann lék því á 71 höggi í dag, eða einu höggi yfir pari.

Eins og kom fram áðan bætta hann sig um sex högg frá því í gær en í gær lék hann á 77 höggum, eða sex höggum yfir pari. Enn eiga margir kylfingar eftir að ljúka leik og miðast niðurskurðurinn við þá kylfinga sem eru fimm höggum yfir pari og betur eins og staðan er núna. Þar sem skor hafa verið nokkuð há í mótinu á Guðmundur enn möguleika að komast áfram.

Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús hafa nýverið hafið leik á öðrum hringnum en fylgjast má með gangi mála hérna.