Fréttir

Olesen sakaður um kynferðislega áreitni í flugi
Thorbjörn Olesen er í slæmum málum.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 1. ágúst 2019 kl. 16:07

Olesen sakaður um kynferðislega áreitni í flugi

Fimmfaldur sigurvegari á Evrópumótaröð karla, Thorbjörn Olesen, var að sögn fjölda fjölmiðla í Bretlandi og vestanhafs handtekinn fyrir kynferðislega áreitni í gær.

Greint er frá því að hinn 29 ára gamli Olesen hafi verið í flugi með British Airways frá Nashville til London Heathrow þar sem hann hafi til að byrja með verið með læti um borð áður en hann veittist að einni konunni. Þá er Olesen einnig sagður hafa pissað á gólfið í vélinni.

Samkvæmt Golf Channel var Ian Poulter með Olesen í fluginu og á hann að hafa reynt að róa félaga sinn niður þegar hann var orðinn of ölvaður en svo hafi hann einfaldlega farið að sofa. Þegar Poulter vaknaði svo frétti hann að lögreglan væri að bíða eftir Olesen á flugvellinum.

Beðið er eftir svörum frá umboðsmanni Olesen um málið en hann hefur ekki enn svarað fyrirspurnum Golf Channel.