Fréttir

Opna meistaramótið verður haldið í sumar með eða án áhorfenda
Shane Lowry á titil að verja.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 2. febrúar 2021 kl. 22:23

Opna meistaramótið verður haldið í sumar með eða án áhorfenda

Martin Slumbers, framkvæmdarstjóri R&A, sagði í dag að Opna meistaramótið yrði haldið hvort sem að áhorfendur yrði leyfðir eður ei.

„Við munum halda Opna mótið í ár,“ sagði Slumbers.

„Við erum að undirbúa mótið, en á þessum tímapunkti er mikil óvissa. Þetta er mun flóknara en þegar Opna meistaramótið hefur verið haldið með venjulegum hætti. En við erum að leggja okkur fram um að halda mót sem verður landinu til sóma.“

Mótið, sem er þriðja risamót ársins alla jafna, var aflýst í fyrra sökum Covid-19 heimsfaraldrinum. Hin þrjú risamótin, Masters mótið, PGA meistaramótið og Opna bandaríska meistaramótið vöru öll leikin í fyrra en þeim var þó frestað.

Slumbers sagði að það væru alveg góðar líkur á að áhorfendur yrðu leyfðir þegar mótið fer fram dagana 15.-18. júlí næstkomandi en mótið er leikið á Royal St. George's vellinum í Englandi.

„Ég held að það sé góður möguleiki á að áhorfendur verði leyfðir en við verðum að bíða og sjá hversu margir verða leyfðir.“