Patrick Cantlay óviðeigandi í beinni útsendingu
Patrick Cantlay má eiga von á því að fá harðort bréf frá fulltrúum PGA mótaraðarinnar vegna óíþróttamannslegrar hegðunar eftir að hafa óvart blótað í beinni útsendingu.
Cantlay var að búa sig undir að slá teighögg þegar útsending hófst aftur eftir auglýsingahlé og áttaði sig greinilega ekki á því að kveikt var á míkrafóninum þar sem hann var í miðjum samræðum við keppinaut sinn Jon Rahm og kylfuberann Adam Hayes um veðrið:
„Ég hef verið að bíða eftir þessu veðri í 40 ár. Þessir ofdekruðu fávitar (e. pampered fuckers) verða að spila," heyrðist Cantlay segja.
Hann hélt svo áfram og sagði við kylfubera sinn að þeir þyrftu bara að spila tvær holur í viðbót og svo gætu þeir fengið sér Mai Tai, sem er áfengur kokteill. Kylfuberinn mótmælti því þá og sagði að hann sjálfur myndi fá Mai Tai en Cantlay gæti bara fengið sér vatn.
Lýsendurnir voru sammála um að þetta væri ekki mjög fagmanlegt og að Cantlay væri augljóslega ekki að einbeita sér að leiknum.
„Talandi um óritskoðað. Þeir verða að átta sig á því að það eru míkrafónar í kringum þá, sérstaklega þegar þú ert að verða stjörnuspilari eins og Cantlay er."