Fréttir

PGA: Burns enn í forystu en Fitzpatrick sækir á
Sam Burns
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 21. febrúar 2021 kl. 11:48

PGA: Burns enn í forystu en Fitzpatrick sækir á

Þriðji hringur á Genesis Invitational mótinu á PGA mótaröðinni var leikinn í gær en vegna veðurs þurfti að fresta leik í tvígang og náðu því ekki allir kylfingar að ljúka við hringinn fyrir myrkur. Eins og greint var frá í gær var mikill vindur á svæðinu sem gerði kylfingum erfitt fyrir og voru skorin í gær því fremur há.

Engin breyting er á toppnum eftir þriðja leikdag en Sam Burns situr sem fastast í efsta sætinu. Forysta hans hefur þó minnkað en eftir annan daginn var Burns með 5 högga forystu á næstu kylfinga. Burns náði að ljúka við 13 holur í gær og lék hann þær á tveimur höggum yfir pari. Hann er því samtals á 10 höggum undir pari og með tveggja högga forskot.

Í 2. sæti situr Matthew Fitzpatrick en hann náði að ljúka 17 holum í gær og lék þær á þremur höggum undir pari. Hann er því samtals á 8 höggum undir pari og aldrei að vita hvort hann nái að velta Burns úr efsta sætinu á lokadeginum.

Efsti maður heimslistans, Dustin Johnson, situr jafn í 3. sæti á samtals 7 höggum undir pari. Hann var á parinu í gær eftir 13 holur.

Ef allt gengur samkvæmt áætun ætti að nást að ljúka mótinu í dag en fylgjast má með stöðu mála hér.