Fréttir

PGA: Fimm jafnir í forystu þegar Shriners Open er hálfnað
Patrick Cantlay er í forystu.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 10. október 2020 kl. 10:06

PGA: Fimm jafnir í forystu þegar Shriners Open er hálfnað

Skotinn Martin Laird og Bandaríkjamennirnir Patrick Cantlay, Brian Harman, Austin Cook og Peter Malnati deila forystunni eftir tvo hringi á Shriners Hospitals for Children Open.

Kylfingarnir fimm eru allir á 14 höggum undir pari eftir tvo hringi en Malnati lék best á öðrum hringnum þegar hann kom inn á 9 höggum undir pari. Malnati hefur verið sjóðandi heitur undanfarnar vikur en hann endaði í 2. sæti á Sanderson Farms meistaramótinu sem fór fram í síðustu viku.

Bryson DeChambeau, sem leiddi eftir fyrsta keppnisdaginn, lék annan hringinn á 4 höggum undir pari og er einn í 6. sæti á 13 höggum undir pari. Það var ekki jafn mikil flugeldasýning hjá DeChambeau á öðrum hringnum eins og þeim fyrsta en hann fékk þó tvo erni á hringnum, fyrst á par 4 holunni 7. og seinna á 16. holunni sem er par 5 hola.

Kevin Na, sem hefur titil að verja, hefur spilað fyrstu tvo hringina á 5 höggum undir pari og er því á 10 höggum undir pari, jafn í 17. sæti.

Skor keppenda í mótinu er gríðarlega lágt en til þess að komast áfram þurftu kylfingar mótsins að leika á 7 höggum undir pari fyrstu tvo hringina. Risameistarinn Collin Morikawa var einn þeirra sem lék fyrstu tvo hringina á 6 höggum undir pari og er úr leik að þessu sinni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.