Fréttir

PGA: Fyrsti sigur Garcia frá árinu 2017
Sergio Garcia. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 5. október 2020 kl. 09:44

PGA: Fyrsti sigur Garcia frá árinu 2017

Spánverjinn Sergio Garcia sigraði í gær á sínu fyrsta móti á PGA mótaröðinni frá árinu 2017 þegar hann sigraði á Sanderson Farms meistaramótinu sem fór fram um helgina.

Garcia lék hringina fjóra á 19 höggum undir pari og fagnaði sigri með minnsta mun en hann tryggði sér sigurinn með frábærum fugli á lokaholu mótsins.

Högg mótsins átti Garcia en það kom á 14. holu þar sem hann setti langt innáhögg sitt með 5 tré tæplega einn metra frá holu og kom sér í kjörstöðu fyrir örn.

Það vakti athygli um helgina að Garcia púttaði með lokuð augu en risameistarinn hefur átt í erfiðleikum með pútterinn undanfarin ár og ákvað hann því að prófa eitthvað nýtt. Þrátt fyrir að hann hafi einungis verið í 28. sæti í pútt tölfræði í mótinu (e. Strokes Gained: Putting) var það þó betra en gengur og gerist hjá kappanum.

Bandaríkjamaðurinn Peter Malnati endaði annar á 18 höggum undir pari, höggi á eftir Garcia en hann kláraði töluvert fyrr um daginn. Malnati lék lokahringinn á 9 höggum undir pari og beið rólegur eftir því hvort einhver myndi jafna það skor eða gera betur eins og raun bar vitni.

Þetta er 11. sigur Sergio Garcia á PGA mótaröðinni en þá hefur hann 15. sinnum staðið uppi sem sigurvegari á Evrópumótaröðinni. Stærsti sigur hans kom auðvitað á Masters mótinu árið 2017.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.