Fréttir

PGA: Henley með þriggja högga forystu
Russell Henley.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 18. október 2020 kl. 13:25

PGA: Henley með þriggja högga forystu

Russell Henley er í góðum málum fyrir lokahring CJ Cup mótsins á PGA mótaröðinni en hann er þremur höggum á undan næstu mönnum. Það er þá þéttur hópur af kylfingum sem er þremur höggum á eftir og því langt í frá að sigurinn sé í höfn hjá Henley.

Henley er búinn að leika stöðugt golf allt mótið og hljóðuðu fyrstu tveir hringirnir upp á 66 og 68 högg. Í gær kom hann svo í hús á 67 höggum þar sem að hann fékk fimm fugla og restina pör. Samtals er Henley á 15 höggum undir pari fyrir lokahringinn.

Jafnir í öðru sæti á 12 höggum undir pari eru þeir Lanto Griffin, Talor Gooch, Jason Kokrak og Xander Schauffele sem var einn í forystu fyrir þriðja hringinn.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.