Fréttir

PGA: Smith fagnaði sínum fyrsta einstaklingstitli
Cameron Smith.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 13. janúar 2020 kl. 07:30

PGA: Smith fagnaði sínum fyrsta einstaklingstitli

Ástralinn Cameron Smith vann í nótt sinn fyrsta einstaklingssigur á PGA mótaröðinni þegar að hann fagnaði sigri á Sony Open mótinu sem fram fór á Havaí. Leika þurfti bráðabana til að skera úr um það hver ynni en ásamt Smith var Brendan Steele í bráðabananum.

Vikan byrjaði ekki vel fyrir Smith en hann var kominn samtals fjögur högg yfir par eftir tvær holur í mótinu. Hann náði aftur á móti að snúa blaðinu við og tapaði aðeins sex höggum restina af mótinu eftir þessar fyrstu tvær holur.

Fyrir lokahringinn var Steele með þriggja högga forystu á Smith. Steele lék lokahringinn á 71 höggi, eða höggi yfir pari, þar sem hann fékk tvo fugla, þrjá skolla og restina pör. Hann fékk meðal annars skolla á 17. holunni. Smith aftur á móti lék á 68 höggum í dag og fékk fugl á lokaholu mótsins. Hann vann því tvö högg af Steele á síðustu tveimur holunum. Þeir enduðu báðir á 11 höggum undir pari.

Í bráðabananum var 10. holan leikin og þurfti aðeins að leika hana einu sinni. Steele fékk skolla og dugði því parið hjá Smith til að fagna sigrinum.

Árið 2017 fagnaði Smith sigri í Zurich Classic mótinu en mótið er liðakeppni þar sem tveir leikmenn leika saman sem lið. Þá lék hann með Jonas Blixt og unnu þeir eftir bráðabana við þá Scott Brown og Kevin Kisner

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.