Fréttir

Ragnhildur komin með annan fótinn í efstu deild - endaði í 2. sæti í Frakklandi
Ragnhildur í regngallanu í mótinu í Frakklandi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 14. september 2025 kl. 11:25

Ragnhildur komin með annan fótinn í efstu deild - endaði í 2. sæti í Frakklandi

Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur er nánast örugg með þátttökurétt á LET Evrópumótaröðinni á næsta ári eftir að hafa endað jöfn í efsta sæti á móti í St. Omer í Frakklandi á LET Access mótaröðinni. Hún tapaði í bráðabana um 1. sætið og varð að sætta sig við 2. sætið. Frammistaðan samt frábær og hún er nú í 5. sæti stigalistans en sjö efstu fá þátttökurétt á LET 2026. Tvö mót eru eftir á keppnistíðinni.

Ragnhildur lék best allra í öðrum hringnum á 67 höggum en veðurguðirnir settu svip sinn á mótið með tilheyrandi frestunum. Að lokum var þriðja hringnum aflýst en þá hafði Ragga leikið fimm holur og hún og Fernanda Lira frá Mexíkó voru efstar á -6 og þurftu því að fara í bráðabana.

„Þriðja hringum var aflýst klukkan 14:40 eftir tveggja tíma frestun. Ég og Fernanda vorum beðnar um að vera klárar kl. 15:15 ef að það myndi myndast veðurgluggi í smá tíma þar sem að það væri ekki þrumuveður. Sem síðan kom, en við fengum engan tíma til að hita upp og okkur var skutlað á 9. holu þar sem það var sú hola sem var í skásta standinu. Auðvitað hefði verið miklu skemmtilegra að vinna, en markmiðið fyrir þessa vikuna var topp 5 til að festa mig rækilega í topp 7 á stigalistanum sem ég gerði og ég get farið tiltölulega pressulaus inn í seinustu tvö mótin,“ sagði Ragnhildur í spjalli við kylfing.is og var sátt við spilamennskuna í mótinu.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Þessi vika var löng í einu orði sagt, mikið af frestunum alla þrjá dagana. En mjög sátt með spilamennskuna mína þessa tvo hringi og þær fimm holur sem ég spilaði af þriðja hringnum. Var að slá heilt yfir mjög vel, en munurinn núna versus seinustu vikur var að ég var að setja niður 3-5m pútt fyrir fugli og fyrir pari til að halda momentum,“ sagði Ragga.

Í bráðabananum hélt hin enska Gemma Clews á pokanum fyrir Röggu í rigningunni og í frétt frá mótaröðinni sagði að það sýndi vel vináttu og samstöðu keppenda á mótaröðinni. „Já, hún er ein af vinkonum mínum á mótaröðinni. Hún bauðst til þess og það var fínt,“ sagði Ragga sem var þegar þetta er skrifað að lenda í Sviss þar sem næsta mót hefst á miðvikudag.

Lokastaðan hjá Ragnhildi og Andreu

Lokastaðan hjá Guðrúnu