Fréttir

Reed enn og aftur í sviðsljósinu
Patrick Reed.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 31. janúar 2021 kl. 11:10

Reed enn og aftur í sviðsljósinu

Patrick Reed er í forystu á Farmers Insurance Open mótinu á PGA mótaröðinni fyrir lokahringinn sem fer fram í dag. Það var þó ekki frábær spilamennska hans sem vakti athygli í gær heldur annað atvik sem átti sér stað á 10. holu.

Atvikið umrædda gerðist eftir að Reed hafði misst innáhögg sitt til vinstri í karga. Þegar Reed nálgaðist boltann spurði hann sjálfboðaliða hvort þeir hefðu séð boltann skoppa. Þeir sögðust ekki hafa tekið eftir því en það sást hins vegar augljóslega í endursýningu í sjónvarpsútsendingu. Þeir Robby Shelton og Will Gordon, sem spiluðu með Reed, sögðust heldur ekki hafa séð boltann skoppa sem og kylfusveinarnir í hollinu. 

Reed lét því leikfélaga sína vita að hann ætlaði að skoða hvort boltinn væri grafinn, tók boltann upp og taldi að hann væri grafinn. Því næst bað hann um álit dómara til að vera viss um að boltinn hefði verið grafinn og Brad Fabel dómari mótsins staðfesti það. Reed fékk því lausn án vítis og fékk par á holunni.

Í viðtali við Golf Channel var hann meðal annars spurður af hverju hann hafi tekið boltann upp áður en hann hafði samband við dómarann. Þá var hann spurður hvort að boltinn hefði verið raunverulega grafinn og hvort það gæti hreinlega gerst þegar boltinn skoppar einu sinni. Reed sagðist ekki hafa gert neitt rangt og sagði jafnframt að þetta væri algengt ferli á mótaröðinni.

Fjölmargir hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum en Reed hefur áður verið sakaður um að beygja golfreglurnar, til að mynda á Bahama eyjum.

Eftir flotta spilamennsku á fyrri níu á þriðja keppnisdegi var Reed á fimm höggum undir pari og með fjögurra högga forystu. Það átti hins vegar eftir að breytast á seinni níu þar sem hann fékk fjóra skolla og einn fugl og endaði daginn jafn í Carlos Ortiz í forystu á 10 höggum undir pari samtals.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Athyglisvert viðtal við Reed á Golf Channel má sjá hér fyrir neðan: