Fréttir

Rory ekki hrifinn af nýrri ofurmótaröð
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 19. febrúar 2020 kl. 20:57

Rory ekki hrifinn af nýrri ofurmótaröð

Sögusagnir hafa gengið um í fjölmiðlum síðustu vikur að hópur einstaklinga væri með plan um það að setja á laggirnir einskonar ofurmótaröð og myndi hún bera heitið Premier Golf League (Úrvalsdeild golfsins).

Samkvæmt fréttamiðlum myndi mótaröðin samanstanda af 18 mótum yfir allt árið og væru 48 skærustu stjörnur golfsins á meðal keppenda. Innanbúðarmaður hefur sagt að sigurvegari hvers móts fengi í það minnsta 5 milljónir bandaríkjadollara og yrði upphæðin jafnvel tvöföld í einhverjum tilfellum.

Lítið hefur komið fram um mótaröðina og hafa því menn keppst við að spá fyrir um hvernig svona mótaröð gengi upp. Eitt er þó víst og virðast menn vera sammála um að mikið magn af pening verður að fylgja mótaröðinni þar sem Jay Monahan, stjórnandi PGA mótaraðarinnar hefur sagt að kjósi menn að leika á PGL mótaröðinni fái þeir ekki að leika á mótum á vegum PGA mótaraðarinnar líka.

Rory McIlroy var spurður út í umrædda mótaröð á blaðamannafundi fyrir heimsmótið í Mexíkó sem hefst á fimmtudaginn.

„Því meira sem ég hugsa um þetta, því verra finnst mér þetta,“ sagði McIroy. „Það sem ég kann að meta sem atvinnukylfingur í minni stöðu er frelsið sem ég hef til að gera það sem ég vil. 

Þetta er frábært dæmi, sumir af strákunum tóku þá ákvörðun að vera ekki með hér í Mexíkó. Ef þú ætlar að vera með á hinni mótaröðinni muntu ekki hafa það val.

Ég las um daginn að ef þú myndir þiggja peninginn gætu þeir tekið ákvörðunina fyrir þig en ef þú þiggur ekki peninginn geta þeir ekki sagt þér hvað þú átt að gera. Þannig er ég, ég hef ekki verið fyrir það að fara eftir skipunum annarra. Mig langar að hafa frelsið til að taka ákvörðun um ferilinn minn og mér líður eins og ég væri að gefa það eftir með því að spila á hinni mótaröðinni.

Ég hef ekki áhuga á þessu. Ég er á móti þessu þangað til það kemur að þeim tímapunkti að ég hef ekkert val. Ef allir aðrir verða með gæti ég ekki átt annarra kosta völ. En á þessum tímapunkti er ég ekki hrifinn af þessari tillögu.“