Sá yngsti í Vestmannaeyjum til að fara holu í höggi
Kristófer Daði Viktorsson er efnilegur kylfingur frá Vestmannaeyjum en á mánudagskvöld varð hann sá yngsti í sögu Golfklúbbs Vestmannaeyja til að fara holu í höggi en Kristófer er bara tíu ára gamall. Draumahöggið kom á 14. holu og náðust fagnaðarlætin á upptöku. Kristófer er líklega ekki yngsti kylfingur á Íslandi sem nær draumahögginu og er hér með auglýst eftir upplýsingum um þann yngsta. Hægt er að senda ábendingar á [email protected] og eins vill kylfingur birta fréttir af draumahöggi íslenskra kylfinga í sumar.
Foreldrar Kristófers eru handboltadrottningin Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og rótari Íslands, Viktor Hólm Jónmundsson. Foreldrarnir eru líka í golfi og var Viktor með í för á mánudagskvöldið og var fljótur að rífa símann upp þegar í ljós kom að draumahöggið var fætt. Viktor lýsti högginu.
„Það er gaman að segja frá því að hann skráði sig inn á Golfbox á mánudaginn og þetta var því fyrsti skráði hringurinn hans. Það var himneskt veður í Eyjum þetta kvöld og nutum við feðgar okkur mjög vel á þessum æðislega golfvelli Vestmannaeyja. Ég er sjálfur með 12-13 í forgjöf, var ekki að spila sérstakt golf og átti einmitt glatað högg á þessari 14. holu, skallaði boltann. Kristófer tók 6-járnið og við sáum strax að höggið væri gott og þegar Kristófer labbaði inn á flötina og sá engan bolta þá kallaði hann hátt og skýrt að boltinn hlyti þar með að vera í holunni. Fagnaðarlætin voru svakaleg og því miður missti ég af fyrstu sekúndunum. Það var kannski gott að vinkona okkar Hröbbu, Vigdís Sigurðardóttir, varð líka vitni. Það var sæll og glaður drengur sem lagðist á koddann þetta kvöld.
Ef þú spyrð hver sé bestur í fjölskyldunni þá er svarið við þeirri spurningu einfalt, það er ég. Hrabba er með einhverja 24 í forgjöf og guttinn bara nýlega byrjaður en mig grunar að hér sé föður- og móðurbetringur að fara fæðast, það yrði bara gaman.“
Kristófer á lengi eftir að muna eftir draumahögginu.
„Sko, þetta byrjaði bara þannig að við pabbi vorum að labba upp á teig eftir þrettándu holuna. Pabbi sló fyrst, alveg hörmulegt högg sem fór bara 20-30 metra. Svo sló ég og pabbi sagði að boltinn væri inni á flötinni en ég sagðist halda að hann hafi farið ofan í. Við vorum að hleypa Vigdísi Sig fram úr okkur og ég sagði pabba að ég ætlaði að labba með henni og athuga hvort boltinn væri í holunni. Þegar sá boltann ofan í þá sturlaðist ég, alveg stuuuurlaðist úr gleði,“ sagði kampakátur nýjasti Einherji landsins.
Man Utd
Eins og sést á myndunum og í myndböndunum, er Kristófer í Manchester United-treyju en þegar myndbandið var skoðað á vegg Hrafnhildar, kemur í ljós að hún er Liverpool-aðdáandi. Viktor og afinn sáu til þess að piltur fetaði rétta slóð.
„Það verður svo sem að segjast eins og er að hann er ekkert voðalega spenntur að horfa á okkar menn en við bíðum spenntir eftir leiknum í kvöld. Ég næ því miður ekki að horfa á hann því ég er staddur á Sauðárkróki að vinna fyrir Stöð 2 Sport á oddaleiknum í körfunni en ég mun fylgjast með gangi mála. Það kom aldrei neitt annað til greina hjá mér og pabba en að Kristófer myndi feta United-slóðina með okkur. Við vinnum þennan leik í kvöld og þar með hefst upprisan,“ sagði Viktor að lokum.