Fréttir

Sigurvegari Players meistaramótsins fær 55 sinnum meira en Nicklaus fékk árið 1974
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 11. mars 2020 kl. 12:00

Sigurvegari Players meistaramótsins fær 55 sinnum meira en Nicklaus fékk árið 1974

Stærsta mót ársins á PGA mótaröðinni hefst á morgun þegar Players meistaramótið hefst. Oft er talað um mótið sem fimmta risamótið og sé tekið mið af verðlaunaféi mótsins þá er það vel skiljanlegt.

Þegar Jack Nicklaus vann mótið árið 1974 var heildar verðlaunaféið í mótinu 250.000 dollarar og fékk hann 50.000 dollara fyrir siugrinn. Sigurvegarinn í ár mun fá 54 sinnum meira en Nicklaus fékk árið 1974, eða 2,7 milljón dollara (350 milljónir íslenskra króna) og er heildar verðlaunaféið 15 milljónir dollara. Efstu þrír í mótinu munu allir fá meira en 1 milljón dollara.

Heildar verðlaunaféið hefur aukist um 2,5 milljón dollara frá því í fyrra en þá fékk Rory McIlroy 2,25 milljón dollara fyrir sigurinn.

Upphæðin eins og sér sem sigurvegari mótsins hlýtur dugar til að komast í rúmlega 400. sæti á lista yfir tekjuhæstu kylfinga sögunnar á PGA mótaröðinni.

Eins og gefur að skilja eru kylfingar mótaraðarinnar hæst ánægðir með þessa þróun.

„Það er eins og þetta sé alltaf að aukast og aukast,“ sagði 2016 Players meistarinn Jason Day. „Það er frábært. Ég er ekki að kvarta.“